Hverfandi líkur eru taldar á því að slys yrði þar sem mannslíf töpuðust og flugvél eyðilegðist vegna lokunar flugbrautar 06/24 á Reykjavíkurflugvelli, samkvæmt áhættumati Isavia sem hefur verið skilað til innanríkisráðherra. Flugbraut 06/24 hefur einnig verið kölluð varaflugbraut, þriðja brautin og neyðarbrautin en hún er langsamlega minnst notuð flugbrauta á Reykjavíkurflugvelli. Engu að síður hafa miklar deilur staðið um lokun flugbrautarinnar og hafa meðal annars samtökin Hjartað í Vatsnsmýri mótmælt lokun hennar harðlega.
Áhættumatsskýrsla Isavia er staðfest af Samgögnustofu og segir í inngangi skýrslunnar að breyting sem leiði af lokun brautar 06/24 sé þolanleg. Í niðurstöðukafla áhættumatsins segir einnig að ólíklegt sé talið að alvarlegt atvik yrði þaðr sem fólk slasast og miklar skemmdir yrðu á búnaði vegna hliðarvindar. „Ólíklegt er talið að slys verði, neyðist flugmaður til að lenda við aðstæður sem væru utan marka afkastagetu flugvélar,“ segir jafnframt. Áhætta sem hlýst af af lokun brautarinnar er sögð í „flokki B“ þar sem ekki er búið að taka neinar ákvarðanir um mildunarráðstafanir, en ef til formlegrar ákvörðunar innanríkisráðuneytisins um lokun brautar 06/24 kemur verður lagt í þær. Lagðar eru fram frekari tillögur um „mildunarráðstafanir“.
Innanríkisráðherra óskaði eftir því þann 30. desember 2013 að Isavia hæfi undirbúning vegna fyrirhugaðrar lokunar flugbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli, meðal annars með formlegri öryggisúttekt eða áhættumati.