Áhöfnin á varðskipinu Tý bjargaði í gær 184 flóttamönnum um borð í varðskipið norður af ströndum Líbíu. Fólkið var á tveimur litlum gúmmíbátum. Samkvæmt frétt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar var um frækilegt björgunarafrek að ræða.Til viðbótar tók Týr við 100 flóttamönnum sem ítalskt varðskip hafði bjargað. Þeim var veitt aðhlynning um borð í Tý. Alls eru því 284 flóttamenn um borð í skipinu sem mun leggja að höfn í Augusta á Sikiley á Ítalíu um miðjan dag í dag.
Mynd af vettvangi þegar fólkinu er bjargað úr tveimur gúmmíbátum. Myndin er fengin af vef Landhelgisgæslunnar.
Í frétt Landshelgisgæslunnar segir: "Áhöfnin á Tý bjargaði flóttafólkinu af fyrri gúmmíbátnum rétt um kvöldmatarleytið í gær en um borð í bátnum voru 71 karl, tvær konur og eitt barn. Meðan á björgunaraðgerðum stóð barst neyðarkall frá öðrum litlum gúmmíbát. Týr kom á vettvang skömmu seinna og bjargaði þar af litlum gúmmíbát alls 92 körlum og 18 konum, þar af einni barnshafandi.
Konu bjargað um borð í Tý. Myndin er fengin af vef Landhelgisgæslunnar.
Sem fyrr segir eru nú alls 284 flóttamenn um borð í Tý og þar af eru nokkrar barnshafandi konur. Allir eru í góðu skjóli innandyra og njóta aðhlynningar varðskipsáhafnarinnar en fólkið var þrekað og skelkað eftir að hafa siglt á þessu erfiða hafsvæði á litlum opnum bátum.
Síðustu daga hefur fjölda fólks verið bjargað á þessu svæði og svo virðist sem mikið flæði flóttafólks sé nú frá Líbíu áleiðis til Ítalíu. Verður varðskipið Týr áfram við björgunarstörf á þessu svæði á næstunni enda er þörfin fyrir jafn öflugt skip og vel þjálfaða áhöfn mikil".
Vekja heimsathygli
Störf Landhelgisgæslunnar við landamæraeftirlit á Miðjarðarhafi, með varðskipi og flugvél, hafa vakið heimsathygli að undanförnu. Í frétt á vef gæslunnar segir að margir erlendir fjölmiðlar hafi óskað eftir að fá að fylgjast með störfum starfsmanna hennar við afar erfiðar aðstæður við björgun flóttamanna. "Í síðustu viku bauðst erlendum fjölmiðlum að koma um borð í varðskipið Tý, hitta áhöfnina og fylgjast með þeim við störf.
Var þetta meðal annars fjölmiðlafólk frá BBC, Le Figaro, Radio France, Voice of America, El Sevier, AFP, ARD og El Pais svo eitthvað sé nefnt. Áður höfðu fulltrúar fjölmargra annarra fjölmiðla komið um borð svo sem frá Sueddeutsche og Dailymail."