Bæta mætti skilyrði háskólafólks til þátttöku í samfélagsumræðunni með því að hækka laun þess og tryggja þannig betur að háskólakennarar þyrftu ekki í jafn miklum mæli að sinna aukastörfum – oft fyrir hagsmunaaðila í samfélaginu – til þess að bæta afkomu sína. Þetta segir Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla. Þrátt fyrir að starfa í Bandaríkjunum hefur Jón ekki farið varhluta af hótunum og gagnrýni valdamikilla aðila í íslensku samfélagi í kjölfar skrifa í fjölmiðla.
Í síðustu útgáfu Kjarnans var fjallað um könnun meðal háskólafólks á Íslandi sem sýndi m.a. að nær sjötti hver svarandi hefði komið sér hjá því að tjá sig við fjölmiðla vegna ótta við gagnrýni frá valdafólki úr stjórnmála- og efnahagslífi. Könnunin sýndi einnig að rúmlega fimmti hver svarandi hefði sætt gagnrýni af hálfu hagsmunaaðila í atvinnulífi og sjötti hver gagnrýni frá stjórnmálamanni eftir að hafa tjáð sig sem vísinda- eða fræðimaður við fjölmiðla í tilteknu máli. Þá eru hótanir frá þessum valdahópum gagnvart háskólafólki við sömu aðstæður ekki óþekktar.
Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla, hefur um alllangt skeið látið að sér kveða í þjóðfélagsumræðunni á Íslandi. Hann hefur bæði skrifað greinar í blöð og vefmiðla og rætt við fjölmiðla um ýmis mál sem snerta samfélagið og sérþekkingu hans, þar á meðal fiskveiðistjórnunarkerfið, auðlindanýtingu og skattamál.
Lestu meira um málið í Kjarnanum.