Guðmundur Guðmundsson, sjómaður, hefur búið til áhrifamikið myndband þar sem birtast yfir tvö hundruð ljósmyndir Styrmis Barkasonar af tómum og niðurníddum húsum í Reykjanesbæ. Myndbandið er hátt í tíu mínútur að lengd.
Í samtali við Kjarnann kveðst Guðmundur hafa ráðist í myndbandagerðina til að vekja athygli á stöðunni. "Þetta er meinsemd í íslensku samfélagi. Fjölskyldur sem lent hafa á vanskilaskrá fá ekki leigt húsnæði, og bankarnir og Íbúðalánasjóður sjá ekki hag sinn í því að halda húsum við og leigja þau út."
Eins og áður segir eru ljósmyndirnar í myndbandinu úr myndaseríu grunnskólakennarans Styrmis Barkasonar, sem tók og birti yfir þrjú hundruð myndir af yfirgefnum húsum í Reykjanesbæ. Í frétt DV um ljósmyndaseríuna segir Styrmir um uppátækið: "Hugmyndin kviknaði þegar ég var að aka á milli staða í Reykjanesbæ og efnd til innanbílskeppni í að koma auga á tómt húsnæði. Sá leikur varð fljótt niðurdrepandi. Ég var sem sagt úti að aka með börnin," sagði Styrmir og hló. "Öll förum við okkar leiðir í og úr vinnu og á milli staða erum við svo upptekin að stara á malbikið að ég held að flestir hafi bara séð vandann í sínu nærumhverfi og ekki grunað hve stór hann er." Ljósmyndaverkefni Styrmis er hægt að skoða hér.
Guðmundur Guðmundsson, sem á veg og vanda að myndbandinu, vonar að það muni vekja athygli. "Það er ekki lengur til húsnæðispólitík á Íslandi sem passar við láglaunapólitíkina sem nú er rekin á Íslandi. Húsnæðismálapólitíkin sofnaði værum blundi þegar fjármálastofnanirnar settust í framsætið. Það verður að gera eitthvað í þessum málum," segir Guðmundur í samtali við Kjarnann.
Um fjörutíu prósent fasteigna Íbúðalánasjóðs (ÍLS) eru á Suðurnesjum, en sjóðurinn átti þar 831 fasteign í lok ágúst. ÍLS á hlutfallslega flestar eignir á Suðurnesjum. Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum lýsti nýverið í ályktun þungum áhyggjum af þróun eignarhalds húsnæðis á svæðinu.
Í Reykjanesbæ er verulegur skortur á leiguhúsnæði, bæði á almennum markaði og í félagslega kerfinu. Samkvæmt frétt Víkurfrétta frá því í lok apríl, hafa margar húseignir í eigu ÍLS staðið auðar mánuðum og jafnvel árum saman. Þær eru að grotna niður og eru nágrönnum til ama.
Í mánaðarskýrslu ÍLS fyrir ágúst, kemur fram að hugmyndir um að sjóðurinn fari í meiriháttar endurbætur á húsnæði til að koma því í leigu samræmist illa hlutverki og heimildum sjóðsins. Þá hafi sjóðurinn enga tekjustofna til að mæta þeim miklu útgjöldum sem eru samfara jafn umfangsmiklum endurbótum. Slíkar framkvæmdir kalli á frekari fjárframlög til sjóðsins.
Hægt er að sjá myndband Guðmundar Guðmundssonar, um tómu húsin í Reykjanesbær, hér að neðan.
[embed]https://vimeo.com/108223063[/embed]