Þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu lýstu yfir áhyggjum af orðspori Íslands og íslensks sjávarútvegs vegna Namibíumáls Samherja í sérstakri umræðu sem efnt var til á Alþingi í dag. Bjarni Jónsson þingmaður Vinstri grænna gerði innihald ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar forstjóra sjávarútvegsfyrirtækisins á fundi SFS á þriðjudag að umtalsefni í því samhengi.
„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi kusu að gera forstjóra Samherja að andliti samtakanna á dagskrá sinni á þriðjudaginn sem helguð var degi sjávarútvegsins. Þar lýsti hann ótta sínum og félaga sinna yfir því að veiðiheimildir til smærri útgerða og strandveiða ógnuðu stöðu eigin fyrirtækis og tengdra aðila á erlendum mörkuðum. Hvað með orðsporsáhættu Íslands vegna framferðis stórfyrirtækja á erlendri grund og alþjóðlegrar glæparannsóknar sem ekki hefur verið til lykta leidd og hér er rædd?“ spurði Bjarni.
Í ræðu sinni sagði Bjarni að útgerðarfyrirtæki landsins væru mikilvæg þjóðarbúinu en að á sama tíma blasti við „sá kaldi raunveruleiki að stórútgerðin hefur rakað til sín meginþorra veiðiheimilda í landinu og skelfur nú yfir tilvist smærri fjölskyldufyrirtækja og einyrkja sem halda uppi búsetu á stöðum sem stórútgerðin hefur skilið eftir í sárum“.
„Í hvert skipti sem málpípur stórútgerðarinnar ryðjast fram í fjölmiðlum eða miðlum í eigin eigu erum við minnt á mikilvægi þess að virða rétt sjávarbyggðanna og tryggja betur byggðafestu aflaheimilda og koma í veg fyrir að smærri sjávarbyggðir séu rúnar lífsbjörginni með uppsöfnun fárra auðmanna og fyrirtækja á veiðirétt,“ sagði Bjarni og bætti því við að það yrði að grípa til aðgerða til að „vinda ofan af samþjöppun aflaheimilda, rekja saman tengda aðila til samræmis við það sem annars staðar gerist.“
„Þannig tel ég að við treystum heilbrigða viðskiptahætti og gagnsæi innan lands sem utan. Hver sem niðurstaðan í því máli sem hér er rætt verður er ljóst að áhrifin á ásýnd íslensks sjávarútvegs eru gríðarleg innan lands sem utan, bæði til langs tíma og skamms. Það er óásættanlegt að orðspor heillar greinar sé undir vegna einstakra fyrirtækja sem byggja viðurværi og auðæfi sín á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar,“ sagði Bjarni í ræðu sinni, í þessari sérstöku umræðu, sem Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata hóf.
Erlendir fjárfestar horfi til spillingarvarna
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingar sagði að orðspor Íslands skipti öllu þegar kæmi að efnahag ríkissjóðs og lánshæfismati hans, sem og alþjóðlegum viðskiptum. „Það er okkur mikilvægt að fá hingað til lands erlendar fjárfestingar enda markaðurinn smár og okkur nauðsynlegt að fá inn stærri aðila,“ sagði Helga Vala og bætti við að þegar erlendir fjárfestar hugleiddu komu inn á markaðinn hérlendis skoðuðu þeir nokkra þætti; stöðugleika gjaldmiðils, stöðugleika í stjórnmálum, fjármálakerfið, virkt réttarkerfi og spillingarvarnir.
„Eins og fram hefur komið hafa fulltrúar nefndar OECD um mútur verið undrandi og áhyggjufullir yfir hægagangi rannsóknar á Samherjamálinu og meintum mútugreiðslum fulltrúa fyrirtækisins í Namibíu. Þetta eru skiljanlegar áhyggjur enda hafa á sama tíma borist fregnir af málarekstri, frystingu eigna og gæsluvarðhaldi samstarfsaðila meintra gerenda á vegum Samherja í Namibíu á meðan lítið hefur spurst til rannsóknar máls hér á landi. Sagði héraðssaksóknari á sínum tíma að hraði rannsóknar væri í beinu samhengi við það fjármagn sem stjórnvöld skammta embættinu, vanfjármögnun bitni einfaldlega á málshraða,“ sagði Helga Vala einnig, í ræðu sinni.
Dráttur rannsóknarinnar ekki góður fyrir neinn
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna sagði í sinni ræðu að þróun málsins væri „síst til þess fallin að efla traust á stofnunum eða á útgerðinni sem slíkri“ og að það væri hennar skoðun að mikilvægt væri að „efla traust á svo samfélagslegra mikilvægri atvinnugrein.“
„Í mínum huga er mjög mikilvægt að svo viðamikilli rannsókn á fyrirtæki sem hefur jafn veigamikla stöðu í einni af grunnstoðum íslensks athafnalífs og nýtir sér sameiginlegar auðlindir landsins sé sinnt af kostgæfni. Ég tek hins vegar undir að sá dráttur sem orðið hefur á rannsókninni er ekki góður fyrir neinn og alls ekki orðspor landsins,“ sagði Bjarkey.
Hún bætti því einnig við að kunnugleg birtingarmynd samfélags mikilvægis útgerðarinnar, „sú sem flest okkar kannast við og ekki síst við sem búum á landsbyggðunum“, væri hversu miklu máli útgerðin skiptir og hefur skipt í nærsamfélaginu í áranna rás og hversu samtvinnuð áhrif fyrirtækjanna eru við félagslíf, íþróttir og menningu. „En mikilvægi útgerðarinnar í nærsamfélaginu þýðir líka ákveðin ítök, þar sem oftar en ekki er um að ræða stærsta vinnustaðinn sem stendur undir meira eða minna velflestum störfum þess og fyrirtækin eru síður en svo hafin yfir gagnrýni,“ sagði Bjarkey.
Þingmaðurinn bætti því við að hún gerði meiri kröfur til fyrirtækja sem nýta sameiginlega auðlindir landsmanna, „sér í lagi þar sem þau greiða afar lágt afgjald fyrir, að þau sýni ríka samfélagslega ábyrgð“.
„Að endingu vil ég segja að það að sama fyrirtæki hegði sér með öðrum hætti erlendis en hér heima er forkastanlegt, enda ætti mannvirðing að vera í forgrunni allra athafna og þátttöku fyrirtækja hvar sem þau eru starfandi í heiminum,“ sagði Bjarkey að lokum.
Þögnin æpandi
Hanna Katrín Friðriksson þingmaður Viðreisnar að engin ástæða væri til þess að ætla að sá farvegur sem rannsókn málsins væri í hjá embætti héraðssaksóknara væri ekki eins og hann ætti að vera.
„En að því sögðu þá er það svo að hér er um að ræða risavaxið spillingarmál, líklega það stærsta einstaka í Íslandssögunni. Það er svolítið sérstakt að það hafi ekki verið gefið neitt upp í ferlinu um stöðu mála, þ.e. hvar málið er statt, hvernig miðar og svo framvegis vegna þess að slík upplýsingagjöf er sannarlega ekki brot á neinum reglum sem varða rannsókn mála né heldur neitt óeðlilegt. Þögnin getur orðið hins vegar svo ærandi að hún ein og sér verður óeðlileg,“ sagði Hanna Katrín.
Leyfum dómstólum að dæma – um „101 í mútum“
Rétt eins og dómsmálaráðherra lýstu töldu þó sumir þingmenn sem kvöddu sér hljóðs í umræðunni óeðlilegt með öllu að verið væri að ræða rannsókn málsins í þessari sérstöku umræðu á Alþingi.
Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokks sagði í umræðunni að þegar stjórnmálamenn reyndu með beinum eða óbeinum hætti að hafa áhrif á störf ákæruvalds í einstökum málum værum við „komin inn á hættulegar brautir“ og sagði „áhyggjuefni“ að þingmenn ræddu rannsókn ákveðins sakamáls í þingsalnum.
„Pólitísk afskipti af ákvörðunum sem þessum eru til þess fallin að stundarhagsmunir stjórnmálamanna ráða ákvörðunum. Ég hins vegar treysti saksóknara. Ég veit að hann stendur rétt að rannsókn sakamála og í þessu tilfelli mun hann standa rétt að rannsókn svokallaðs Samherjamáls, komast að réttri niðurstöðu og ef tilefni er til láta þá sæta ábyrgð ef lög hafa verið brotin,“ sagði Óli Björn.
„Það sætir furðu að við séum yfir höfuð að ræða þetta mál hér í dag. Leyfum frekar þeim sem samkvæmt lögum er falið að rannsaka þetta mál og dómstólum landsins að dæma ef til þess kemur,“ sagði Ingibjörg Isaksen þingmaður Framsóknarflokks, sem sagðist jafnframt ekki fara vel á því að alþingismenn tjáðu sig úr ræðustól um mál sem væru í rannsókn.
Í ræðunni á undan hafði Eyjólfur Ármannsson þingmaður Flokks fólksins kallað Namibíumálið „skólabókardæmi um mútur til opinberra starfsmanna í þriðja heiminum“ – „101 í mútum [...] eða meintum mútugreiðslum“ og einnig fett fingur út í það að í ræðu sinni hefði Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra talað um „pólitískan“ vinnuhóp innan OECD.
„Ég bara veit ekki hvað hæstvirtur ráðherra á við með því að embættismaður innan OECD sé pólitískur. Ég hef tekið sjálfur þátt í starfi OECD vegna aðgerða gegn peningaþvætti og ég get fullyrt það við hæstvirtan ráðherra og þingheim að þar eru vinnubrögð á hæsta standardi sem tilheyrir og OECD er ein öflugasta stofnun hvað varðar gæði stjórnsýslu og vinnubrögð sem til eru í heiminum,“ sagði Eyjólfur.