Sprotafyrirtækið KOT var stofnað á síðasta ári, með það að markmiði að bjóða upp á veflausn fyrir sölu stærri fasteignaverkefna sem væri leiðandi þegar kæmi að skilvirkni, yfirsýn og gagnvirkni. Í vikunni sem var að líða komu tugir nýrra íbúða sem verktakafyrirtækið ÞG Verk hefur til sölu í Vogabyggð í Reykjavík inn á vef fyrirtækisins, sem lýsir lausn sinni sem nokkurs konar heimabanka fyrir fasteignaviðskipti.
Róbert Helgason framkvæmdastjóri KOT segir í samtali við Kjarnann að það sem fyrirtækið vilji koma til móts við sé hið mikla utanumhald sem fylgi sölu íbúða í stærri fasteignaverkefnum. Í dag sé staðan þannig að það sé ofboðslega mikið af tölvupóstum með skjölum á .pdf-formi sem þurfi að vera á flugi á milli seljanda og fasteignasala og til og frá kaupendum sömuleiðis, með tilheyrandi villuhættu.
„Það hefur vantað í þennan geira það sama og er á fjármálamarkaði, heimabankaaðgang, þannig að notendur geti skráð sig inn og séð sín skjöl og stöðu mála á einum stað,“ segir Róbert í samtali við blaðamann, beðinn um að útskýra hvaða þörfum KOT sé að mæta.
Hann segir hugmyndina að KOT hafa kviknað vegna fyrri reynslu af fasteignaviðskiptum, þar sem aðgengi að gögnum hafi ekki verið nægilega gott, en auk Róberts voru stofnendur KOT þeir Sveinn Rúnar Sigurðsson, Rólant Dahl Christiansen og Vífill Harðarson.
Hægt að fá SMS þegar tilboð berast í eignir
Einstaklingar sem eru í fasteignahugleiðingum geta skráð sig inn á vefinn og skoðað íbúðir sem þar eru í boði, en sem stendur eru það nokkrir tugir íbúða í nýjum fjölbýlishúsum í Vogabyggð.
Hægt er að merkja eignir sem eru til sölu sem „uppáhalds“ og fá í kjölfarið SMS þegar tilboð berast í eignirnar. Einnig er hægt að sjá hversu hátt hæsta boð er, sem er nýlunda á íslenskum fasteignamarkaði.
Róbert segir að þetta sé að norrænni fyrirmynd – og að þar tíðkist í fasteignaviðskiptum að fjárhæðin sem þurfi að setja fram til að vera með hæsta boð liggi öllum ljós fyrir. Ekki verður þó hægt að sjá hvernig samsetning tilboðanna er.
Rafrænt söluferli
Á vef KOT eru tilboð gerð rafrænt og hægt að hafa yfirsýn yfir stöðu mála í rauntíma, auk þess sem undirritanir fara fram með rafrænum skilríkjum. KOT heldur einnig utan um kaupferlið og uppgjör með rafrænum hætti.
Fasteignasölurnar Lind og Miklaborg þjónusta söluferlið á íbúðunum sem nú má finna á vef KOT og segir Róbert að allir aðilar séu áhugasamir um þessa nýju lausn á fasteignamarkaðnum, sem sé til þess fallin að auðvelda seljendum fasteignaverkefna yfirsýn og umsýslu sem fylgi því að selja tugi eða hundruð íbúða á skömmum tíma.
„Það eru allir með sama markmið, að ná fram góðu söluferli,“ segir Róbert.