Landsbankinn auglýsti á dögunum 0,41 prósent hlut bankans í Borgun til sölu, sem bankinn eignaðist eftir að hann tók yfir Sparisjóð Vestmannaeyja, og er nokkur áhugi er á hlutnum og bárust tilboð í hann innan frests sem gefinn var, samkvæmt heimildum Kjarnans, en Landsbankinn er nú að meta tilboðin og áhuga frá fjárfestum. Frestur til að skila inn tilboðum rann út 4. maí, en hluturinn var auglýstur til sölu 17. apríl, á vef bankans, og hafði fyrirtækjaráðgjöf bankans umsjón með söluferlinu.
Eins og Kjarninn greindi frá, var ákvað bankinn að selja 31,2 prósent hlut í Borgun bak við luktar dyr til valinna fjárfesta, og hefur Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs bankans, sagt að það hafi verið mistök. Betra hefði verið að selja hlutinn í opnu ferli, og undir þau sjónarmið hefur Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, tekið.
Landsbankinn áskilur sér rétt til að hafna öllum þeim tilboðum sem berast í eignarhlutinn, samkvæmt upplýsingum sem fram kom í auglýsingu á vef bankans. „Landsbankinn vekur athygli á að hann er ekki í aðstöðu til að afhenda gögn um fjárhag eða fjárhagsupplýsingar um félagið, en vísar til ársreikninga þess, sem má nálgast hjá ársreikningaskrá. Þá er vakin athygli á því að eigandi meirihluta hlutafjár í Borgun hf. er jafnframt einn stærsti viðskiptavinur félagsins,“ segir í auglýsingu Landsbankans, og er þar vitnað til Íslandsbanka.
Eins og Kjarninn greindi frá, var 31,2 prósent hlutur Landsbankans seldur bak við luktar dyr til valinna fjárfesta, en söluferlið var á þeim tíma lokað og ekki auglýst. Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, sagði á aðalfundi bankans að það hefðu verið mistök að auglýsa ekki hlutinn til sölu, en íslenska ríkið er eigandi rúmlega 98 prósent hlutafjár í bankanum. Landsbankinn fékk 2,2, milljarða fyrir hlutinn, en gengið frá sölunni í lok árs í fyrra. Í febrúar á þessu ári var í fyrsta skipti greiddur arður úr félaginu frá því árið 2007, samtals 800 milljónir króna.
Stofnfé Eignarhaldsfélags Borgunar, sem keypti 31,2 prósent hlutinn í Borgun, nemur 500 þúsund krónum sem skiptist í þrjá flokka, 100 þúsund í A flokki, 395 þúsund í B flokki og fimm þúsund í C flokki. Í A og B flokki eru eigendur stofnfjár með takmarkaða ábyrgð en í C flokki er ótakmörkuð ábyrgð, samkvæmt stofnskjölum félagsins.
Einu eigendur A flokks stofnfjár er félagið Orbis Borgunar slf. Eigendur B flokks hlutabréfa Eignarhaldsfélags Borgunar eru þrettán talsins, samkvæmt samningi um samlagsfélagið sem Kjarninn hefur undir höndum. Stærsti einstaki eigandinn er Stálskip ehf., þar sem Guðrún Lárusdóttir hefur stýrt ferðinni í áratugi, með 29,43 prósent hlut. Þá á félagið P126 ehf. 19,71 prósent hlut, en eigandi þess er Einar Sveinsson í gegnum móðurfélagið Charamino Holdings Limited.
Þá á Pétur Stefánsson ehf. 19,71 prósent hlut, en forsvarsmaður þess var Sigvaldi Stefánsson á stofnfundi. Samanlagður eignarhlutur þessara þriggja stærstu eigenda nemur 68,85 prósentum af B flokki stofnfjár.
Á eftir þessum stærstu eigendum kemur félagið Vetrargil ehf. með 5,14 prósent hlut og TD á Íslandi ehf. 5,15 prósent. Afganginn eiga AB 426 ehf (2,86%)., þar sem Sigurþór Stefánsson er í forsvari, Eggson ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta Geirfinnsdóttir er í forsvari, Bústoð ehf. (0,86%), þar sem Anna Birgitta er einnig í forsvari, Framtíðarbrautin ehf. (4,43%), þar sem B. Jakobína Þráinsdóttir er í forsvari, Iðusteinar ehf., þar sem Magnús Pálmi Örnólfsson er í forsvari, Holt og hæðir ehf., þar sem Sigríður V. Halldórsdóttir er í forsvari, Spectabilis ehf., þar sem Óskar V. Sigurðsson er í forsvari, og Mens Manus ehf., þar sem Hjalti Þ. Kristjánsson er í forsvari.
Samkvæmt stofnfundargerð félagsins, frá 23. október síðastliðnum, voru fjórir einstaklingar mættir fyrir hönd félaganna Orbis Borgunar slf. og Orbis GP ehf. Þau félög eru þau einu sem eru í eigendur stofnfjár í C flokki með ótakmarkaða ábyrgð. Þau sem mættu á fundinn fyrir hönd félaganna voru Magnús Magnússon, Óskar V. Sigurðsson, Jóhann Baldursson og Margrét Gunnarsdóttir.