Almenningur sýnir því aukinn áhuga að festa vexti óverðtryggðra húsnæðislána eftir að vextir Seðlabankans jukust í vor og umræðu þar sem seðlabankastjóri mælti með því að festa vexti. Þetta kemur fram í svörum þriggja stærstu bankanna, Arion banka, Landsbankans og Íslandsbanka.
Engar reglur eru hjá Seðlabankanum varðandi formlegar ráðleggingar til almennings.
Kjarninn sendi fyrirspurn á bankana þrjá og spurði hvort starfsfólk þeirra hefði orðið vart við aukningu á umsóknum um að festa vexti í framhaldi af ráðleggingum seðlabankastjóra.
Í svari Arion banka kemur fram að í hvert sinn sem umræðan um fasta vexti fer á flug verði þau vör við slíka aukningu og sé það engin undantekning í þetta sinn. „Við gefum ekki upp nákvæmlega hversu mikil sú aukning hefur verið,“ segir í svarinu.
Samkvæmt Landsbankanum hefur orðið aukning á beiðnum um að festa vexti íbúðalána. „En áhuginn jókst þegar Seðlabankinn tilkynnti um stýrivaxtahækkun þann 19. maí.“
Íslandsbanki hefur ekki upplýsingar á reiðum höndum um nákvæma tölfræði en segir að nokkur aukning hafi orðið á fyrirspurnum um fasta vexti almennt að undanförnu. Tölur um umsóknir um að festa vexti fást ekki fyrr en við birtingu uppgjörs annars ársfjórðungs þann 28. júlí næstkomandi.
Verðbólgan reyndist meiri og þrálátari en áður var spáð
Meginvextir Seðlabanka Íslands hækkuðu um 0,25 prósentustig í maí síðastliðnum og urðu 1 prósent. Þetta var í fyrsta skipti frá árinu 2018 sem peningastefnunefnd ákvað að hækka vexti. Síðan þá hafa þeir ýmist lækkað eða staðið í stað, úr 4,5 prósentum niður í 0,75 prósent.
Í tilkynningu bankans frá 19. maí kom fram að efnahagshorfur hefðu batnað frá fyrri spám og vægi þar þyngst vísbendingar um meiri bata innlendrar eftirspurnar. „Atvinnuleysi hefur hjaðnað þótt það sé enn mikið. Slakinn í þjóðarbúskapnum virðist því vera minni og útlit er fyrir að hann hverfi fyrr en áður var talið.“
Hins vegar hefði verðbólga reynst meiri og þrálátari en áður var spáð, meðal annars vegna framboðstruflana í heimshagkerfinu í kjöfar farsóttarinnar, en alþjóðlegt olíu- og hrávöruverð hefði einnig hækkað mikið undanfarið.
Nefndin nefndi einnig áhrif gengislækkunar krónunnar í fyrra á verðvísitöluna, sem og miklar hækkanir launa og húsnæðisverðs. Því væri nauðsynlegt að hækka vexti bankans til þess að tryggja kjölfestu verðbólguvæntinga í verðbólgumarkmiðinu.
„Ef ég ætti að gefa fólki ráð þá væri það að festa vexti“
Athygli vakti í byrjun júlí þegar Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri mælti með því í hlaðvarpsþætti Snorra Björnssonar að fólk festi vexti á húsnæðislánum sínum.
Hann sagði í viðtalinu að það hefði komið honum á óvart að ekki fleiri væru að festa vexti. „Mögulega ætti ég að vera skýrari um það að ég mæli með að fólk festi,“ sagði hann. „Ef ég ætti að gefa fólki ráð þá væri það að festa vexti. Ég sjálfur geri mér ekki nákvæmlega grein fyrir hvað er að fara að gerast í kerfinu. Það er svo margt sem getur gerst. Ég bara veit það að við náttúrlega hljótum að þurfa að hækka vextina. Vextirnir voru óvenjulega lágir út af þessum faraldri.“
Ásgeir benti á að ákveðið öryggi fengist með bindingu vaxta. „Þá veistu hvað þú þarft að borga nokkurn veginn í þrjú eða fimm ár, eftir því hvernig það er. Ef fólk vill fá öryggi þá er betra að festa vexti, en svo hefur fólk líka val um breytilega vexti en þeir munu að einhverju leyti elta vexti Seðlabankans.“
Kjarninn sendi jafnframt fyrirspurn á Seðlabankann og spurði hvort einhverjar reglur væru hjá bankanum varðandi formlegar ráðleggingar frá honum eða seðlabankastjóra til fólks um hvernig húsnæðislán sé best að taka. Svarið við spurningunni var einfalt: „Nei.“