Í byrjun maí voru þrettán manns ákærðir af sérstökum saksóknara fyrir samkeppnislagabrot vegna verðsamráðs og hlutdeildar í slíkum á árunum 2010 og 2011. Mennirnir þrettán voru allir starfsmenn Byko, Húsasmiðjunnar og Úlfsins. Kjarninn hefur ákæruna undir höndum. Hana er hægt að lesa í heild sinni með því að smella á hlekk neðst í fréttinni. Kjarninn fjallaði auk þess ítarlega um niðurfærslur skulda í þeim geira sem hin ætluðu brot áttu sér stað innan í síðustu útgáfu sinni. Lestu þá umfjöllun hér.
Ákæra sérstaks saksóknara er fyrir brot á samkeppnislögum. Fyrsti liður hennar snýr að verðsamráði starfsmanna Byko og Húsasmiðjunnar á árunum 2010 og 2011. Í ákærunni er sagt frá mörgum tilfellum þar sem starfsmenn fyrirtækjanna tveggja tala saman og upplýsa hvora aðra um verðupplýsingar á ákveðnum vörutegundum.Alls eru tilfellin sem eru tilgreind í ákæruskjalinu 21 talsins.
„Við erum bara að drepa hvern annan"
Í öðrum lið ákærunnar er fjallað um verðsamráð Byko og Úlfsins byggingavara á árunum 2010 til 2011. Í skjalinu eru tilgreind alls ellefu tilfelli þar sem starfsmenn þeirra stunduðu meint verðsamráð. Í þriðja lið er fjallað um hvatningu til verðsamráðs milli Húsasmiðjunnar og Byko í tveimur tilfellum í febrúar 2011. Fjórði liður snýr að verðsamráði og hvatningu til verðsamráðs milli Byko og Húsasmiðjunnar i tengslum við tilboðsgerð í lok febrúar 2011. Í samtali milli starfsmanna fyrirtækjanna tveggja, sem sagt er frá í ákærunni, segir meðal annars að tilboðsgerð í grófvörum væru „komið bara í algjört bull sko“. Síðar segir starfsmaður Byko við starfsmann Húsasmiðjunnar að „þetta eru hjaðningavíg [...] Við erum að blæða báðir tveir“ og „við erum bara að drepa hvern [svo] annan“.
Fimmti liður ákærunnar fjallar um tilraunir starfsmanna Byko og Húsasmiðjunnar við að koma á samráði við starfsmann Múrbúðarinnar í október 2010, en sú tilraun markaði upphaf rannsóknar Samkeppniseftirlitsins á byggingavörumarkaði eftir að hún var tilkynnt.
Sérstakur saksóknari krefst þess að mennirnir þrettán verði dæmdir til refsingar. Fangelsisvist getur legið við hluta brotanna.
Lestu ákæruna í heild sinni hér.