Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, segir dóminn yfir Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, hafa verið samkvæmt væntingum. Eins og fram hefur komið hlaut Gísli Freyr átta mánaða fangelsisdóm í morgun vegna lekamálsins svokallaða, en dómurinn kemur ekki til fullnustu haldi Gísli skilorð í tvö ár.
Gísli játaði sekt sína í málinu fyrir Hönnu Birnu í gær, og síðar fyrir dómi í morgun. Hann segir ákvörðun sína um að játa sekt sína í málinu ekki tilkomna vegna nýrra sönnunargagna sem Ríkissaksóknari gerði verjanda Gísla viðvart um á mánudaginn. Sérstakur hugbúnaður sem lögregla keyrði á tölvu Gísla um helgina, þykir sanna að Gísli hafi með óyggjandi hætti sent fjölmiðlum trúnaðarupplýsingar um hælisleitandann Tony Omos í nóvember á síðasta ári. Gísli hefur fram til þessa neitað sök í málinu.
Efaðist aldrei um að sakfellt yrði í málinu
Í samtali við Kjarnann segist Helgi Magnús aldrei hafa efast um að sakfellt yrði í málinu, þrátt fyrir að ný sönnunargögn í málinu hafi ekki litið dagsins ljós fyrr en um helgina. "Miðað við þau sönnunargögn sem lágu fyrir, og við byggðum ákæruna á, hefðu þau dugað til þess. Það var auðvitað mat ákærða hvort hann vildi láta á þetta reyna fyrir dómi, en það var augljóst að eftir að skjalið fannst loks í tölvunni hans, sem við höfðum ekki fundið fyrr af tæknilegum ástæðum, að þá væri nú fokið í flest skjól með vörn hans. Játning hans kemur í beinu framhaldi af því að ég gerði verjanda viðvart um skjalið og sendi honum afrit af því. Ákærði þekkir skjalið og mátti búast við því að það fyndist."
Helgi Magnús vildi ekki svara því að svo stöddu hvort embættið muni áfrýja dómnum til Hæstaréttar. "Það hefur mikið gengið á í þessu máli og því miður hafa verið uppi raddir um að embættið hafi gengið einhverra erinda og annað slíkt. Það spretta alltaf upp einhverjir spekingar sem hafa skoðun á þessum málum, hvort vísa eigi þeim frá eða hverjar hvatir ákæruvaldsins eru, en það er mjög bagalegt ef að umfjöllun um svona mál fer í þá átt að grafa undan trúverðugleika eða trausti fólks á ákæruvaldinu."
Gísli Freyr Valdórsson við dómsuppkvaðningu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Mikilvægt að allir sitji við sama borð
Aðspurður um hvort hann teldi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra hafa reynt að grafa undan trúverðugleika Ríkissaksóknara í málinu, svaraði Helgi Magnús: "Ég vil ekki fara svo djúpt í þessa umræðu, en þið þekkið þessa umræðu. Þið þekki skrif og þið þekkið ráðna ráðgjafa og umfjöllun þeirra um þetta mál, og hvernig þeir hafa matreitt málið. Þá þekkið þið líka umræðu um að það hafi vegið gengið of langt í því að haldleggja tölvur og leita í tölvum, að það hafi verið einhvers konar inngrip sem hafi verið óeðlilegt. Það er algjörlega eðlilegt að mál sem snúa að sakborningi á þessu stigi, af þessu kalíberi ef ég má orða það svo, að hann lúti eins og aðrir sakborningar sömu reglum um rannsókn og við getum ekki gert greinarmun á Jóni og Séra Jóni." Þá sagði Helgi Magnús að leit lögreglu í tölvu hafi einmitt stuðlað að því að sönnungargagnið fannst sem kom fyrrgreindri atburðarrás af stað.
Og það hefur komið fram í öðrum málum, að það er verið að álykta á flokksráðsfundum eða eitthvað slíkt, um að það eigi að fella niður ákærur í einhverjum málum. Hvað er það?"
Þá sagði Helgi Magnús aðspurður um hvort hann teldi innanríkisráðherra hafa gengið of hart fram í málinu: "Ég held ég láti það bara vera að vera með einhver komment á það. En þið þekkið umræðuna, hún er víðar og er í öðrum málum. [...] Og það hefur komið fram í öðrum málum, að það er verið að álykta á flokksráðsfundum eða eitthvað slíkt, um að það eigi að fella niður ákærur í einhverjum málum. Hvað er það? Afskipti af ákæruvaldi eru jafn alvarleg og afskipti af dómsvaldi. [...] Það verða aldrei nein sakamál nema ákæruvaldið ákæri, og þær ákvarðanr sem ákæruvaldið tekur um ákærur eru afdrifaríkar vissulega, en þær eru líka grundvöllur þess að einhver maður verði nokkurn tímann dæmdur fyrir refsiverða háttsemi. Dómstólar taka ekkert slíkt upp hjá sjálfum sér."
Ákveðinn manndómur fólginn í ákvörðun Gísla
"Mér finnst ákveðinn manndómur í þessu sem Gísli hefur nú ákveðið að gera. Kannski hefði hann átt að gera þetta fyrr, en það er manndómur fólginn í því að ákveða að taka bara slaginn núna og ljúka málinu frekar en að þrælast í gegnum aðalmeðferð með vitnum og öllum slíkum óþægindum og kannski er ekkert algjörlega úr vegi að hann njóti þess eitthvað við ákvörðun refsingar," segir Helgi Magnús. Ákæruvaldið krafðist þess að Gísli yrði dæmdur í eins árs fangelsi, en benti á að brot hans gæfi tilefni til fangelsisvistar að allt að þremur árum miðað við ásetning hans að hafa áhrif á umræðu.
"Ég er bara aðeins að reyna að nota tækifærið til þess að skýra hlutverk ákæruvaldsins og mikilvægi þess að það fái frið til að vinna og hafi traust til að sinna sínum verkefnum."
"Það liggur fyrir niðurstaða, það liggur fyrir að ákæra Ríkissaksóknara var réttmæt og við þurfum ekki frekari staðfestingu á því að þetta var ekki einhvers konar pólitískur leikur eða neitt slíkt eins og einhverjir létu eftir sér að ýja að."
Mikilvægt að tryggja sjálfstæði ákæruvaldsins
Helgi Magnús segir boðaðan niðurskurð á fjárframlögum til ákæruvaldins mikið áhyggjuefni. "Sjálfstæðið er náttúrulega ekki mikið ef að tilteknir málaflokkar eða mál eru sett í einhver konar hefti út af peningum. Það er fjármagnið sem ræður því hvort sjálfstæði ákæruvaldsins er tryggt eins og dómstóla. Það hefur því miður verið þannig að það virðast vera meiri peningar til til að stofna einhverjar nýjar stofnanir og stofur út um hvippinn og hvappinn, heldur en að hlúa að grunnþáttum ríkisvaldsins eins og lögreglu, dómstólum og ákæruvaldi. [...] Við horfum fram á samdrátt, og við horfum fram á drátt á málum með mildun refsinga fyrir sakborninga og auðvitað brot á þeirra rétti, sem er tryggður í mannréttindasáttmálanum og stjórnarskrá, um að þeir fái meðferð sinna mála. Það er auðvitað ákvörðun stjórnmálamannanna hvort þeir vilja að það nái fram að ganga eða hvort við eigum að fara sömu leið og á spítölunum og það verði bara langir biðlistar."
Aðspurður um hvort Helgi Magnús eigi við boðaðan niðurskurð á fjárheimildum til embættis Sérstaks saksóknara með orðum sínum, sagði hann svo ekki vera. Hann væri að tala á almennum nótum. "Ég er bara aðeins að reyna að nota tækifærið til þess að skýra hlutverk ákæruvaldsins og mikilvægi þess að það fái frið til að vinna og hafi traust til að sinna sínum verkefnum. Og þá eins líka að almenningur geti treyst því að við sinnum þeim verkefnum sem við erum að sinna, af sömu eljusemi og áhuga hvort sem það er Jón eða Séra Jón sem á í hlut og við beitum þeim úrræðum sem lög gera ráð fyrir. Það er ágætt að allir viti það og geti treyst því."