Tekjur norska kolefnisföngunarfyrirtækisins Aker Carbon Capture námu 234 milljónum norskra króna, eða um 3,6 milljörðun íslenskra króna, á nýliðnum ársfjórðungi. Það eru rúmlega 40 sinnum meiri tekjur en fyrirtækið fékk á sama tíma í fyrra.
Aftur á móti skilar fyrirtækið enn tapi af resktri sínum, en afkoma þess á ársfjórðungnum var neikvæð um 854 milljónir íslenskra króna. Þetta kemur fram á norska fréttamiðlinum E24.
Í sumar skrifaði Aker Carbon Capture undir yfirlýsingu við íslenska kolefnisförgunarfyrirtækið Carbfix um að sameina tæknilausnir þessara tveggja fyrirtækja. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Carbfix gerir samstarfið fyrirtækjunum kleift að bjóða viðskiptavinum sínum hagstæða heildarlausn við föngum og förgun á koltvísýringi.
Fjárfestar bjartsýnir
Í nýbirtu ársfjórðungsuppgjöri Aker Carbon Capture kemur fram að fyrirtækið hefur tapað alls 128 milljónum norskra króna, eða tæpum tveimur milljörðum íslenskra króna, það sem af er ári. Hins vegar hafa fjárfestar orðið bjartsýnni á framtíð fyrirtækisins, en hlutabréfaverð þess hefur sexfadast frá skráningu Aker á hlutabréfamarkaðinn í Osló í ágúst í fyrra.
Aker hefur nýtt sér þessa bjartsýni með því að sækja sér 840 milljónir norskra króna, eða um 13 milljarða íslenskra króna, í aukið hlutafé í ágúst. Fyrst átti hlutafjáraukningin einungis að nema 700 milljónum norskra króna, en ákveðið var að stækka umfang hennar þar sem „umtalsverð eftirspurn“ var eftir þeim.
Stefnir á föngun milljóna tonna
Aker Carbon Capture hefur meðal annars skrifað undir samning um kolefnisföngun við sementsverksmiðju í eigu Norcem í Brevik í Noregi, en þar stefnir fyrirtækið á að fanga 400 þúsund tonn af koltvísýringi frá 2024.
Fyrirtækið stefnir svo á að stórfjölga slíkum samningum á næstu árum, en samkvæmt áætlunum þess er búist við það muni semja um föngun allt að tíu milljóna tonna af koltvísýringi innan ársins 2025.