Sigrún Magnúsdóttir umhverfisráðherra hefur gert samkomulag við meirihluta atvinnuveganefndar um að Hagavatnsvirkjun verði ekki sett í nýtingarflokk í rammaáætlun, eins og breytingartillaga nefndarinnar sagði til um og hefur mjög verið deilt um undanfarna daga. Meirihluti nefndarinnar hafði lagt til að fjórum virkjunum yrði bætt við tillögu umhverfisráðherra um að setja Hvammsvirkjun í nýtingarflokk. Þar af var Hagavatnsvirkjun, sem verkefnisstjórn um rammaáætlun hefur ekki lokið sinni umfjöllun um.
Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sem sagði þingheimi frá þessum breytingum í svari við óundirbúinni fyrirspurn frá Guðmundi Steingrímssyni, þingmanni Bjartrar framtíðar, um rammaáætlun. Áður en að fyrirspurn Guðmundar kom hafði málið verið rætt undir liðnum fundarstjórn forseta í tæpa klukkustund, og undanfarna tvo þingdaga sömuleiðis.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar lýstu í morgun yfir mikilli óánægju með það að breytingartillaga atvinnuveganefndar um rammaáætlun væri á dagskrá þriðja daginn í röð. Það væri mikið ósætti með málið og tímaeyðsla að halda áfram að tala um það.
Það kom því stjórnarandstöðunni á óvart að forsætisráðherra tilkynnti um þetta samkomulag milli umhverfisráðherra og meirihluta atvinnuveganefndar í óundirbúinni fyrirspurn. „Það er sem sagt búið að gera samkomulag um að breyta breytingartillögunni sem við áttum að ræða hér í dag. Hvenær átti að segja okkur þetta? Hvar eru þessar ákvarðanir teknar? [...] Þetta er orðinn farsi,“ sagði Guðmundur Steingrímsson.