Norðurlöndin veita Íslandi mikilvægt pólitískt, efnahagslegt og samfélagslegt skjól og hjálpa til við stjórn landsins. Þetta kemur fram í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála Íslands þar sem Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði ræðir við Boga Ágústsson fréttamann á RÚV og fyrrverandi formann Norrænafélagsins og Stefán Ólafsson prófessor í félagsfræði um samskipti Íslands við Norðurlöndin.
Í þættinum kemur enn fremur fram að Ísland hafi notið umfangsmikils samfélagslegs skjóls frá hinum Norðurlöndunum. Þannig hafi norræna velferðarmódelið verið ákveðin fyrirmynd að íslenska velferðarkerfinu. Íslendingar hafi haft aðgang að menntastofnunum á Norðurlöndunum og norræna velferðarkerfinu flyti þeir þangað og hér áður fyrr hafi borist nýjustu straumar og stefnur til Íslands fyrst og fremst frá Kaupamannahöfn.
Íslendingar hafa einnig notið pólitísks og efnahagslegs skjóls af tvíhliða samskiptum sínum við Norðurlöndin og Norðurlandasamvinnunni, samkvæmt viðmælendum þáttarins. Þannig hafi Ísland notið diplómatískar aðstoðar, þ.e. pólitísks skjóls, Norðurlandanna í alþjóðastofnunum eins og stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Vatnaskil hafi orðið í samvinnu Norðurlandanna í öryggis- og varnarmálum með Stoltenberg skýrslunni árið 2009 þegar öryggis- og varnarmál urðu hluti af norrænni samvinnu. Hluti af því samstarfi er samstarf Landhelgisgæslunnar við Danmörku og Noreg í leit og björgun. Landhelgisgæslan gæti ekki sinnt efirliti á hafinu í kringum landið án aðstoðar þessara ríkja. Norðurlöndin koma einnig að loftrýmisgæslu hér á landi. Norðurlandaþjóðirnar hafa einnig aðstoðað við að byggja upp teymi sérfræðinga í netöryggismálum á Íslandi.
Ísland tekur mið af stefnumótun Norðurlandanna í velferðarmálum, réttindum kvenna og hinsegin fólks
Þegar kemur að stjórn Íslands þá eiga íslenskir embættismenn í miklum samskiptum við kollega sína á Norðurlöndunum á öllum sviðum velferðarmála og á flestum sviðum mennta- og menningarmála, að því er fram kemur í þættinum. Starfsmenn utanríkisþjónustunnar eiga líka í miklum samskiptum við kollega á Norðurlöndunum. Samkvæmt viðmælendum tryggir það að íslenskir embættismenn séu oft og tíðum vel upplýstir um hvað Norðurlöndin hyggist gera í ákveðnum málaflokkum og hafi haft áhrif á stefnumótun hér á landi.
Þannig taki Ísland mið af stefnumótun Norðurlandanna í velferðarmálum, réttindum kvenna og hinsegin fólks. Utanríkisstefna Íslands sé jafnframt farin að taka meira mið af utanríkistefnum Norðurlandanna en áður og leggi þannig áherslu á mannúðar-, þróunar- og jafnréttismál og fjölþjóðasamvinnu.
Auk þessa sé stjórnsýsla hinna Norðurlandanna talin mjög fagleg og þessi fagmennska hafi haft áhrif til batnaðar á íslenska stjórnsýsluhætti. Rannsóknir hafa sýnt að það er ákveðin hætta á frændhygli eða fyrirgreiðslu í litlum stjórnsýslum hjá smáríkjum og það að vinnubrögð íslensku stjórnsýslunnar eru í meira mæli farin að taka mið af stjórnsýsluháttum á hinum Norðurlöndunum hefur dregið úr fyrirgreiðslu innan íslensku stjórnsýslunnar.
Mikil andstaða hefur verið hér á landi í garð náinnar samvinnu við þjóðir heims
Í þættinum kemur fram að mikil andstaða hafi verið hér á landi í garð náinnar samvinnu við þjóðir heims. Ísland hafi hins vegar oft byrjað á því að opna landið yfir til hinna Norðurlandanna og þannig hafi Norðurlöndin verið eins konar hlið okkar inn í hinn stóra heim. Fyrst hafi Ísland til að mynda verið þátttakandi í sameiginlegum norrænum vinnumarkaði og fyrstu löndin sem Íslendingum var leyfilegt að ferðast til án vegabréfs hafi verið Norðurlöndin. Síðan hafi Ísland yfirfært þetta fyrirkomulag yfir á Evrópska efnahagssvæðið og Schengen.
Ísland hafi fylgst náið með þátttöku Norðurlandanna í samvinnu við önnur ríki Evrópu og tekið mið af henni við inngönguna í EFTA, EES og Schengen. Norðurlöndin hafi hjálpað Íslandi að ná betri samningum við Evrópusambandið í tengslum við inngönguna í EFTA, EES og Schengen. Ísland hafi einnig notið efnahagslegs skjóls Norðurlandanna, til að mynda með aðgengi að vinnumarkaði landanna og samvinnu Seðlabanka landanna. Að því leyti hafi sameiginlegur vinnumarkaður Norðurlandanna verið mikilvægur þáttur í hagstjórn Íslands þar sem Íslendingar hafi getað leitað sér atvinnu á Norðurlöndum þegar atvinnuleysi er mikið hér á landi og snúið svo aftur heim á frón þegar betur árar.
Hér fyrir neðan er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni.