Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hefur komist að þeirri niðurstöðu að Já sé ekki skylt að veita samkeppnisaðilum aðgang að gagnagrunni félagsins undir kostnaðarverði. „Nefndin telur að ósannað sé að háttsemi Já hafi falið í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu,“ segir í fréttatilkynningu frá Já, vegna þessa.
Því hefur áfrýjunarnefndin úrskurðað að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins frá 7. nóvember skuli felld úr gildi. Auk þess hefur ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að sekta Já verið felld niður, en áður hafði Samkeppniseftirlitið sektað Já um 50 milljónir króna.
Niðurstaðan er fordæmisgefandi og hefur því áhrif á starfskilyrði allra íslenskra fyrirtækja sem sinna upplýsingaþjónustu og hafa fjárfest í uppbyggingu gagnagrunna hérlendis, segir í tilkynningu frá Já.
„Við fögnum þessari niðurstöðu, enda var ákvörðun Samkeppniseftirlitsins einsdæmi í Evrópu. Áður hafði Úrskurðarnefnd fjarskipta- og póstmála staðfest að það væri hlutverk símafyrirtækjanna, ekki Já, að selja símanúmeraupplýsingar í heildsölu,“ segir Sigríður Margrét Oddsdóttir, forstjóri Já, í tilkynningu.
,,Það væri ekki eftirsóknarvert að byggja upp slíka starfsemi á Íslandi hefði ákvörðun Samkeppniseftirlitsins staðið. Þetta er mjög jákvætt fyrir markaðinn almennt þar sem fjárfestingar á þessu sviði hafa aukist mikið undanfarin ár, í kjölfar mikilla tæknibreytinga eins og við öll þekkjum. Það er einnig ánægjulegt að fá það staðfest að það sé ekki hlutverk Já að niðurgreiða rekstrarkostnað samkeppnisaðila sinna, enda kemur fram í úrskurði nefndarinnar að með því móti væri samkeppnisstaða skekkt,“ segir Sigríður Margrét enn fremur.