Ákvörðun Seðlabanka Kína, um að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig niður í 4,35 prósent, hefur verið vel tekið á mörkuðum, ekki síst í Bandaríkjunum, en þar hefur Nasdaq vísitalan hækkað um tæplega tvö prósent.
Þetta er í sjötta skipti síðan í nóvember í fyrra sem vextirnir eru lækkaðir, en að sögn CNBC, þá miðar lækkunin að því að örva kínverska hagkerfið. Að undanförnu hafa hagtölur í Kína verið neikvæðar, en hagvöxtur fór í fyrsta skipta undir sjö prósent á þriðja ársfjórðungi, frá því árið 2009.
Stjórnvöld vonast til þess að hagvöxtur verði í það minnsta sjö prósent á árinu. Ákvörðunin um vaxtalækkun þykir staðfesta að stjórnvöld hafi áhyggjur af því að kínverska hagkerfið sé að sigla í gegnum erfiðleika, sem gætu orðið meiri á næstu misserum. Innflutningur hefur dregist saman í landinu og það sama má segja um útflutning.