Það mun koma í ljós á allra næstu vikum hvort Tal fái að renna inn í fjölmiðla- og fjarskiptafyrirtækið 365 miðla. Samruni félaganna veltur á samþykki Samkeppniseftirlitsins, sem liggur enn ekki fyrir. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri eftirlitsins, segist ekki geta tímasett nákvæmlega hvenær hans sé að vænta en reiknar með því að það verði á næstu vikum.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að núverandi eigendur Tals eigi að fá 19,78 prósent hlut í 365 miðlum samþykki Samkeppniseftirlitið samruna félaganna tveggja. Eignarhlutur félaga á vegum Ingibjargar Pálmadóttur, sem hefur verið aðaleigandi 365 miðla um nokkurra ára skeið, minnkar við þetta niður í 77,97 prósent. Eigandi Tals í dag er félagið IP fjarskipti. Eigendur þess eru fagfjárfestasjóðurinn Auður 1, sem á 94 prósent hlut, og félag í eigu Kjartans Arnar Ólafssonar, sem á sex prósent hlut.
Lífeyrissjóðir verða fjölmiðlaeigendur
Auður 1 er framtakssjóður sem er rekstri fjármálafyrirtækisins Virðingar. Hann var stofnaður árið 2008 og þá lögðu rúmlega 20 fjárfestar honum til alls 3,2 milljarða króna. Tal er eitt átta fyrirtækja sem sjóðurinn á hlut í.
Samkvæmt heimildum Kjarnans eru stærstu fjárfestar sjóðsins íslenskir lífeyrissjóðir, meðal annars Lífeyrissjóður verslunarmanna, þó þar sé einnig að finna einstaklinga. Lífeyrissjóðir landsins verða því óbeinir eigendur að stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins verði samruninn samþykktur.
Munu óska eftir frekari upplýsingum
Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri fjölmiðlanefndar, sagðist í samtali við Kjarnann í síðustu viku gera ráð fyrir því að nefndin muni óska eftir frekari upplýsingum um eigendur Auðar 1. Hún sagði ennfremur að lög um fjölmiðla kveði skýrt á um að fjölmiðlanefnd geti óskað eftir upplýsingum um eignarhald og yfirráð yfir fjölmiðlum. Fjölmiðlanefnd fundaði um málið síðastliðin föstudag og mun, samkvæmt heimildum Kjarnans, senda beiðni um frekari upplýsingar um eignarhaldið í þessari viku.
„Ég geri frekar ráð fyrir að það verði óskað eftir því, en við munum jafnframt líka fara yfir þetta á fundi fjölmiðlanefndar á föstudag.“