Al-Kaída í Jemen hefur lýst ábyrgðinni á hryðjuverkaárásunum í París í síðustu viku á hendur sér. Þetta var gert í nýju myndbandi sem sjá má hér að neðan.
Í myndbandinu kemur meðal annars fram að samtökin hafi valið skotmörk, skipulagt og fjármagnað hryðjuverkin. Þá kemur fram að stjórnvöld á Vesturlöndum hafi áður verið vöruð við stefnu sinni um tjáningarfrelsi. „Hættið móðgunum ykkar við spámann okkar og helgidóma. Hættið að úthella blóði okkar. Farið frá löndum okkar. Hættið að fara ránshendi um auðlindir okkar.“
Einnig er rætt um samstöðugönguna í París um helgina og sjónum beint að þjóðarleiðtogunum sem þar komu saman, þeir séu þeir sömu og hafi barist gegn al-Kaída víða. „Frakkland deilir öllum glæpum Bandaríkjanna.“
AP hafði áður fengið yfirlýsingu frá hópnum seint á föstudag. Þar kom fram að leiðtogar al-Kaída á Arabíuskaga hafi stjórnað aðgerðum hryðjuverkamannanna og skotmörkin hefðu verið vandlega valin. Þá var einnig sagt að árásin á Charlie Hebdo hafi verið hefnd fyrir heiður Múhameðs spámanns.
Bræðurnir Said og Cherif Kouachi eru sagðir hafa haldið þessu sama fram í símtali úr prensmiðjunni þar sem þeir voru svo drepnir á föstudag. Þá hefur vitni greint frá því að einn byssumannanna hafi öskrað „þið getið sagt fjölmiðlunum að þetta sé al-Kaída í Jemen“ á meðan á árás þeirra stóð. Áður hafði verið greint frá því að þeir hefðu tengsl við hryðjuverkasamtökin.
Þessi frétt verður uppfærð.