Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, segir dóm Hæstaréttar í Al Thani málinu svokallaða vera mikilvægan fyrir trúverðugleika skráðs hlutabréfamarkaðar hér á landi, sem verði að grundvallast af trausti fjárfesta á leikreglunum sem viðskiptilífið þurfi að fara eftir. „Dómur Hæstaréttar í Al Thani málinu hefur mikla þýðingu fyrir hlutabréfamarkaðinn. Trúverðugleiki hlutabréfamarkaðar grundvallast á trausti á þeirri umgjörð sem honum er búin. Í þessu samhengi skiptir niðurstaða Hæstaréttar á lögmæti tiltekinnar háttsemi í viðskiptum miklu máli,“ segir Páll.
Í Al Thani málinu voru Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, Magnús Guðmundsson, fyrrverandi bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, og Ólafur Ólafsson, fjárfestir og stærsti einstaklingseigandi Kaupþings fyrir fall bankans, dæmdir í fangelsi fyrir markaðsmisnotkun, og síðan voru allir nema Ólafur dæmdir fyrir umboðssvik einnig. Sigurður fékk fjögurra ára óskilorðsbundið fangelsi, Hreiðar Már fimm og hálft ár, Magnús fjögur og hálft ár og Ólafur einnig fjögur og hálft ár.
Páll Harðarson, forstjóri Nasdaq Kauphallar Íslands, og doktor í hagfræði frá Yale háskóla.
Páll segir dóm Hæstaréttar vera skýra leiðbeiningu um hvernig hlutirnir eigi að vera. „Hvar hann dregur línuna í þessum efnum hlýtur að ráða miklu um mat fjárfesta á þeirri vernd sem þeir búa við. Niðurstöður dómsmála geta því ráðið úrslitum um hvort fjárfestar eru tilbúnir til að setja traust sitt á almenningshlutafélög og veita þeim fjármagn sem er forsenda fyrir því að slík félög verði drifkraftur í íslensku efnahagslífi. Í Al Thani málinu eru málsatvik afskaplega skýr og niðurstaðan gefur til kynna að brotin hafi verið alvarleg og beinst gegn almenningi,“ segir Páll.
Hann segir enn fremur, að niðurstaða Hæstaréttar sé afgerandi og almenning í hag. „Hún er almenningshlutafélaginu í hag, hún er almenningi í hag og hún er íslensku efnahagslífi í hag.“