Konur eru aðeins tæplega ellefu prósent þeirra sem verma lista Forbes yfir ríkasta fólkið í heiminum. Af 1.826 milljarðamæringum sem þar eru taldir upp eru 197 konur, og hafa aldrei fleiri konur komist á listann. Meðal milljarðamæringa undir fertugu er hlutfall kvenna betra, um 20 prósent.
Christy Walton er áfram ríkasta kona í heimi en hún hefur verið á toppnum í fimm af síðustu sex árum. Hún á 41,7 milljarð Bandaríkjadala samkvæmt Forbes, fimm milljörðum dala meira en í fyrra. Auðævi hennar nema rúmlega 5.500 milljörðum íslenskra króna. Walton á hlut í verslunarrisanum Walmart, sem hún erfði eftir eiginmann sinn John Walton. Liliane Bettencourt, sem erfði L'Oreal snyrtivörufyrirtækið, er næstríkasta kona heims og á rúmlega 40 milljarða dala. Í þriðja sæti er Alice Walton, sem á einnig hlut í Walmart, og er mágkona Christy Walton. Eignir hennar eru metnar á rúmlega 39,4 milljarða króna.
29 konur á listanum falla einnig undir skilgreiningu Forbes yfir þá milljarðamæringa sem hafa komist áfram á eigin verðleikum.
Elizabeth Holmes er yngsta konan til þess að verða milljarðamæringur upp á eigin spýtur og ein þeirra sem kemur ný inn á listann yfir 400 ríkustu einstaklingana. Hún er í 360. sæti og eru eignir hennar metnar á 4,5 milljarða dala eða um 550 milljarða króna. Kjarninn hefur áður skrifað um Holmes, sem er 31 árs gömul og hætti í námi í Stanford-háskóla þegar hún var nítján ára. Hún ákvað að eyða sparnaði sínum frekar í að stofna fyrirtæki en ljúka námi, og stofnaði fyrirtækið Theranos utan um hugmynd sína um einfaldari og mun ódýrari blóðprufur. Hún hefur stýrt fyrirtækinu frá árinu 2003 og á enn helminginn í félaginu.