32 einstaklingar hafa sótt um alþjóðlega vernd á Íslandi það sem af er ágústmánuði. Aldrei hafa fleiri einstaklingar sótt um vernd í einum mánuði en í ágúst, að sögn Rauða krossins, og er mánuðurinn þó ekki liðinn.
Rauði krossinn minntist þess á Facebook-síðu sinni í gær að eitt ár væri liðið frá því að samtökin tóku að sér réttindagæslu fyrir hælisleitendur. Á þessu eina ári hafi 220 manns sótt um hæli á Íslandi og tólf hafi fengið það.
Langflestir sem komu til Íslands eru frá Albaníu, en þar á eftir kemur fólk frá Makedóníu, Sýrlandi, Úkraínu og Írak.
Í dag er eitt ár frá því að Rauði krossinn tók að sér réttindagæslu fyrir hælisleitendur. Á þessu eina ári hafa 220...Posted by Rauði krossinn on Tuesday, August 25, 2015
Úrbætur í málefnum hælisleitenda
Samkvæmt drögum að nýjum útlendingalögum, sem kynnt voru á mánudag, verður sett á stofn móttökumiðstöð fyrir þá sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi svo hægt sé að greina þá sem eru í sérstaklega viðkvæmri stöðu og sérþarfir þeirra. Þannig geti umsækjendur um alþjóðlega vernd, hælisleitendur, fengið fagþjónustu á einum stað. Þá eiga öll samskipti útlendinga við íslensk stjórnvöld að fara í gegnum Útlendingastofnun.
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hælisleitanda sem komi til Íslands ólöglega verði ekki refsað, „færi hann rök fyrir því eða líkur séu á að hann komi í óslitinni för frá svæði þar sem hann hafði ástæðu til að óttast ofsóknir […] eða var án ríkisfangs og án möguleika að öðlast slíkt“. Skilyrði fyrir því er að viðkomandi gefi sig fram við stjórnvöld eða færi gildar ástæður fyrir því að hafa ekki gert það.
Núna er það svo að hælisleitendur eru iðulega dæmdir í 30 daga fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum eða stolnum skilríkjum við komuna til landsins. Þetta hefur verið gagnrýnt, enda hafa hælisleitendur oft ekki kost á eigin skilríkjum. Ákvæðið í frumvarpinu er í samræmi við ákvæði í flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna.
Þá er í frumvarpinu lagt til að réttaráhrifum vegna ákvarðana Útlendingastofna verði sjálfkrafa frestað í öllum málum um alþjóðlega vernd þar sem niðurstaða er kærð til kærunefndar útlendingamála. Þannig eigi allir að fá úrlausn sinna mála fyrir æðra stjórnsýslustigi áður en til þess kemur að fólki sé vísað úr landi.