Simon Wiesenthal stofnunin freistar þess nú að fá níræðan Dana dreginn fyrir rétt vegna stríðsglæpa í heimstyrjöldinni síðari. Maðurinn er fimmti efsti á lista Wiesenthal stofnunarinnar yfir þá sem hún telur hafa framið stríðsglæpi gegn gyðingum á stríðsárunum.
Á Friðriksbergi við Kaupmannahöfn býr Helmuth Leif Rasmussen, níræður að aldri. Það er þó ekki hans rétta nafn því hann hefur í áratugi gengið undir öðru nafni. Allt frá árinu 1945.
Í fyrrahaust kom út í Danmörku bók sem ber heitið „En skole i vold“. Bókin fjallar um þátttöku ungra Dana í samtökum sem báru nafnið Frikorps Danmark og voru stofnuð 1941. Þeir sem gengu í samtökin voru tilbúnir til að vinna með Þjóðverjum, bæði utan Danmerkur og innanlands. Það var útkoma þessarar bókar sem beindi athygli Wiesentahl stofnunarinnar að Helmuth Leif Rasmussen þótt stofnunin hafi lengi vitað um hann.
Bobruisk fangabúðirnar
Eftir að stríðinu lauk yfirheyrði danska lögreglan Helmuth Leif Rasmussen, sem þá var tvítugur, vegna þátttöku hans í stríðinu. Í skýrslum lögreglunnar lýsir Helmuth Leif Rasmussen störfum sínum í fangabúðum nasista við bæinn Bobruisk í Hvíta-Rússlandi en þangað var hann sendur til starfa, 17 ára gamall, ásamt fleiri ungum löndum sínum. Áður en Danirnir komu til Bobruisk dvöldu þeir um tíma í Sennheim í Þýskalandi og einnig í Treskau í Póllandi. Samkvæmt frásögn Helmuth Leif Rasmussen starfaði hann, ásamt félögum sínum, sem nýliði í fangabúðunum í Bobruisk en gegndi þar aldrei formlegri stöðu enda ungur að aldri eins og áður sagði. Við skýrslutöku lögreglunnar lýsti hann því að hann hefði margoft orðið vitni að aftökum fanga sem áður höfðu unnið ýmis störf til dæmis við hreingerningar og snjómokstur. Þegar kraftana þraut, fyrst og fremst vegna næringarskorts voru þeir látnir afklæðast og síðan skotnir. Líkunum var fleygt í fjöldagröf skammt frá fangabúðunum. „Ég hlýddi skipunum, gat ekki annað“ sagði Helmuth Leif Rasmussen við skýrslutökuna og lagði áherslu á að hann hefði aldrei verið annað en nýliði í búðunum.
Hlaut dóm eftir stríð
Vegna þátttöku sinnar í stríðinu og starfa fyrir Þjóðverja hlaut Helmuth Leif Rasmussen þriggja ára fangelsisdóm, sem hann afplánaði. Svipaða dóma fengu margir aðrir sem gengið höfðu til liðs við Frikorps Danmark. Hann giftist síðar og eignaðist eina dóttur. Um tuttugu ára skeið var hann tæknimaður (ljósamaður) hjá kvikmynda- og sjónvarpsframleiðandanum Nordisk Film uns hann fór á eftirlaun. Í viðtali við dagblaðið Berlingske fyrir nokkrum dögum sagði Helmuth Leif Rasmussen að hann vildi óska að hann hefði aldrei gengið í Frikorps Danmark, en maður gæti ekki snúið gangi sögunnar.
Wiesenthal stofnunin kærir
Simon Wiesenthal stofnunin ætlar nú að freista þess að fá Helmuth Leif Rasmussen dreginn fyrir dóm í Danmörku. Efraim Zuroff, sem er yfirmaður rannsóknardeildar stofnunarinnar er staddur í Kaupmannahöfn þeirra erinda að leggja fram kæru á hendur Helmuth Leif Rasmussen hjá lögreglu. Efraim Zuroff segist hafa undir höndum gögn, sem hann vill ekki greina nánar frá, sem hann byggi kæruna á. Hann ítrekar að stríðsglæpir af þessu tagi fyrnist aldrei og bendir á nýuppkveðinn fjögurra ára fangelsisdóm yfir Oscar Gröning, bókhaldaranum frá Auschwitz. Efraim Zuroff sagði að á skrá Wiesenthal stofnunarinnar væri að finna nöfn tuttugu annarra Dana, sem full ástæða væri til að kanna nánar. Hann vildi í viðtali við dagblaðið Berlingske ekki útskýra málið frekar og ekki nefna nein nöfn. „Það gerist kannski síðar“ sagði hann.
Sönnunarbyrðin erfið
Danskir sérfræðingar í refsirétti telja fremur ólíklegt að dómsmál verði höfðað á hendur Helmuth Leif Rasmussen. Til þess þurfi sönnunargögnin að vera mjög afgerandi. Mikkel Thastrum fjölmiðlafulltrúi danska ákæruvaldsins sagði að vandlega yrði farið yfir þau gögn sem Wiesenthal stofnunin legði fram. Fyrr en það hefði verið gert væri ekki meira um málið að segja.
Fáir Danir verið dæmdir
Sérfræðingar í refsirétti og sagnfræðingar sem fjölmiðlar hafa rætt við vegna hinnar fyrirhuguðu kæru Wiesenthal stofnunarinnar á hendur Helmuth Leif Rasmussen segja það reyndar sérkennilegt hvað danskir dómstólar hafi haft takmarkaðan áhuga fyrir því hvað danskir þegnar, til dæmis þeir sem unnu með Þjóðverjum, hafi tekið sér fyrir hendur utan landsteinanna á stríðsárunum. Ditlev Tamm, lagaprófessor við Hafnarháskóla, segir að Danir hafi í þessum efnum farið mildari höndum um þegna sína en margar aðrar þjóðir, það væri í raun verðugt rannsóknarefni.