Athafnamaðurinn Alfreð Örn Clausen, sem saksóknari í San Bernardino í Kaliforníu hefur lýst eftir í tengslum við rannsókn á meintum þjófnaði og peningaþvætti, lýsir sig saklausan og segist aðeins hugsanlega vera vitni, en ekki sakborningur. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. hefur sent fjölmiðlum, í tengslum við eftirlýsinguna í Bandaríkjunum.
„Undirritaður lögmaður hefur sent bréf Michael A. Ramos, District Attorney í County of San Bernardino í Kaliforníu, þar sem óskað hefur verið eftir upplýsingum um málið og upplýst að Alfreð sé reiðubúinn að aðstoða embættið með hverjum þeim hætti sem þurfa þykir til þess að upplýsa málið,“ segir í yfirlýsingunni.
Í henni segir enn fremur að Alfreð hafi rekið fyrirtæki ásamt viðskiptafélaga sínum sem var verktaki fyrir lögmansstofu, sem aðstoðaði fólk við að endurfjármagna lán sín.
Í tilkynningunni segir að fyrirtæki Alfreðs hafi aldrei tekið við neinum fjármunum frá viðskiptavinum löfræðistofunnar, og því séu hinar „meintu sakir“ sem bornar eru á Alfreð ekki réttar.
Sjá má yfirlýsingu lögmanns Alfreðs, hér að neðan.