Innstæðueigendur Sparisjóðs Vestmannaeyja misstu frá sér um 700 milljónir króna á fimmtudag og föstudag í síðustu viku, og var fyrirtækið Borgun þar stærsti aðilinn, en það tók út um 200 milljónir króna frá sjóðnum og fór upphæðin að mestu til Landsbankans.
Eins og kunnugt er tók Landsbanki Íslands yfir starfsemi Sparisjóðs Vestmannaeyja um helgina, eftir að rekstur sjóðsins var að komast í þrot, en nýlega varð ljóst að afskrifa þurfi eignir fyrir um milljarð króna í eignasafni sjóðsins. Þessi afskrift var of mikið fyrir sjóðinn. Árið 2010 fór sjóðurinn í gegnum endurskipulagningu, og lögðu fjárfestar honum til einn milljarð króna.
Stofnfjáreigendur í Sparisjóði Vestmannaeyja fá um 0,15 prósent hlut í Landsbankanum fyrir stofnfé sitt, en virði þess var metið á 332 milljónir króna í samrunanum.
Samkvæmt heimildum Kjarnans urðu fréttir um slæma stöðu sjóðsins að „algjöru vantrausti“ á rekstri sjóðsins, eins og einn viðmælenda Kjarnans komst að orði. DV gerði grein fyrir þessu í fréttaskýringu sem
Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, vildi ekki tjá sig um málefni Borgunar sem snéru Sparisjóði Vestmannaeyja, þegar Kjarninn náði af honum tali, en staðfesti þó að peningarnir, um 200 milljónir, hefðu verið færðir frá Sparisjóðnum.
Stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja fékk frest til klukkan fjögur síðastliðinn föstudag til að skila fullnægjandi gögnum um leið sem gæti tryggt eiginfjárstöðu sjóðsins. Sá frestur var síðan framlengdur og seint á föstudagskvöld óskaði stjórnin eftir því að Landsbankinn myndi gera tilboð í sjóðinn, í samráði við Fjármálaeftirlitið (FME). DV gerði grein fyrir þessari atburðarás í fréttaskýringu.
Í tilkynningu vegna samrunans, sem send var á föstudag, er haft eftir Þorbjörgu Ingu Jónsdóttur, fráfarandi stjórnarformanni Sparisjóðs Vestmannaeyja, að með samkomulaginu hafi náðst farsæl niðurstaða sem tryggi hag sjóðsins.