Kínverski netrisinn Alibaba hefur keypt hlut í samskipta App fyrirtækinu Snapchat fyrir um 200 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur 28 milljörðum króna, að því er fram kemur á vef Bloomberg. Verðmatið á Snapchat, sem lá til grundvallar viðskiptunum, nam 15 milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 2.100 milljörðum króna. Alibaba keypti 1,3 prósent hlut í félaginu, en að undanförnu hefur Alibaba verið að kaupa hluti í fyrirtækjum sem framleiða samskiptahugbúnað.
Í lok árs 2013 bauð Facebook í Snapchat, þrjá milljarða Bandaríkjadala, en því tilboði var neitað. Sú ákvörðun hefur reynst rétt þar sem virði fyrirtækisins hefur fimmfaldast frá því tíma, og notendafjöldinn vex stöðugt.
Meðal hluthafa Snapchat er annar kínverskur risi á netmarkaði, fjárfestingasjóðurinn Tencent Holding, en hann á einnig hlut í Plain Vanilla, sem framleiðir Quiz Up spurningaleikinn. Rætur þess fyrirtækis eru íslenskar, en forstjóri þess og stofnandi er Þorsteinn B. Friðriksson.
Notendur Snapchat eru í nærri 300 milljónum, en virkir notendur eru um 100 milljónir um allan heim. Þar af eru 70 prósent notenda konur, en ríflega 66 prósent notenda Snapchat eru undir 25 ára aldri.