Yfirgnæfandi líkur eru á því að Hæstiréttur Íslands muni vísa Aurum-málinu svokallaða í heild sinni aftur til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Boðuð dómsuppsaga í málinu í Hæstarétti í dag, þykir benda sterklega til þess.
Sakborningar í Aurum-málinu, þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri bankans, voru allir sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. júní síðastliðinn.
Ríkissaksóknari áfrýjaði niðurstöðunni til Hæstaréttar og krafðist ómerkingar þar sem einn meðdómari málsins hafi verið vanhæfur til að fjalla um málið. Umræddur meðdómari er Sverrir Ólafsson, fjármálaverkfræðingur, en hann er bróðir Ólafs Ólafssonar, kenndur við Samskip, sem hlaut þungan fangelsisdóm vegna aðildar sinnar að Al-Thani fléttunni svokölluðu.
Aðalmeðferð fyrir Hæstarétti laut einvörðungu að ómerkingarkröfu ríkissaksóknara. Áður en málflutningur hófst var verjendum og saksóknara tilkynnt um að það yrði aðeins boðað til dómsuppkvaðningar ef fallist yrði á kröfu ákæruvaldsins um ómerkingu og heimvísun. Ella myndi málið halda áfram fyrir Hæstarétti og boðað yrði til málflutnings um málið í heild sinni. Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, staðfestir í samtali við Kjarnann að einungis hafi verið boðað til dómsuppsögu í málinu í dag. Ef dómurinn hefði ekki fallist á ómerkingarkröfu ákæruvaldsins, hefði embættinu verið tilkynnt um það og sömuleiðis um frekari umfjöllun um málið.