Það er skammt stórra högga á milli hjá starfsfólki Actavis. Fyrir hrun vann það hjá íslensku lyfjafyrirtæki sem íslenskur athafnamaður, Björgólfur Thor Björgólfsson, hafði fengið risalán hjá Deutsche Bank til að taka af markaði. Þegar efnahagskerfi heimsins fór á hliðina reyndist lánið mikið vandræðamál innan bankans og langan tíma tók að vinna úr málum Actavis vegna þess. Að lokum tókst það og Björgólfur Thor hélt hlut í félaginu.
Árið 2011 voru höfuðstöðvar Actavis hins vegar færðar frá Íslandi. Árið 2012 keypti bandaríska lyfjafyrirtækið Watson Actavis og félögin voru sameinuð. Um miðjan maí 2013 var síðan tilkynnt um enn meiri stækkun á efnahagsreikningi Actavis þegar greint var frá kaupum félagsins á írska lyfjaframleiðslufyrirtækinu Warner Chilcott. Flestum þessara hræringa fylgdu vilyrði um að starfsemi Actavis á Íslandi yrði að mestu óbreytt.
Í nóvember 2014 var tilkynnt um fyrirhugaða sameiningu Actavis og Allergan. Eftir að hún gekk í gegn tók sameinað fyrirtæki upp síðarnefnda nafnið í júní 2015, þótt starfsemin á Íslandi hafi haldið Actavis-nafninu.
Um síðustu mánaðarmót var svo tilkynnt um að loka ætti lyfjaverksmiðju Actavis í Hafnarfirði árið 2017 og fækka þar með þeim störfum fyrirtækisins sem eftir eru á Íslandi úr 700 í 400. Í tilkynningu frá Allergan vegna þessa var sérstaklega tekið fram að önnur starfsemi Actavis á Íslandi myndi haldast óbreytt.
Kjarninn birti Bakherbergi um framtíð Actavis 3. júli síðastliðinn og velti þar fyrir sér, í ljósi ítrekaðra vilyrða um að Actavis yrði alltaf íslenskt fyrirtæki, hvort aðvörunarbjöllur hefðu ekki átt að hringja þegar Allergan tók sérstaklega fram að önnur starfsemi en lyfjaverksmiðjan myndi verða áfram á Íslandi um ókomna framtíð.
Nú, mánuði síðar, hefur Allergan nefnilega selt þessa starfsemi til ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva og hefur ekkert með ákvörðun um framtíðarskipan starfseminnar að gera. Ekkert er minnst á framtíð íslensku starfseminnar í tilkynningu vegna þessarra kaupa og í fréttum RÚV í gærkvöldi var greint frá því að enn væri óljóst hvaða áhrif þessar nýjustu sviptingar hafa á hana, samkvæmt upplýsingum frá Allergan á Íslandi.
Því er vert að velta því fyrir sér, í annað sinn á einum mánuði, hvort starfsemi Actavis sé mögulega alfarið að flytjast frá Íslandi?