Enginn ráðherra í ríkisstjórn Íslands nýtur lengur trausts meirihluta þjóðarinnar. Allir ráðherrar Vinstri grænna og Framsóknarflokksins hafa tapað trausti frá því í apríl en allir ráðherrar Sjálfstæðisflokks hafa bætt við sig trausti á sama tíma. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu á trausti til ráðherra sem birt var í dag.
Flestir landsmanna treysta Ásmundi Einari Daðasyni, mennta- og barnamálaráðherra, best eða 46,3 prósent aðspurðra. Traust á hann dregst þó saman um sex prósentustig frá síðustu könnun sem gerð var í apríl.
Sá ráðherra sem missir mest traust milli kannana er Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, en einungis 19 prósent landsmanna segjast bera mikið traust til hennar. Það er 14 prósentustigum minna en í apríl og fyrir vikið er Lilja nú orðin sá ráðherra sem fæstir svarendur segjast bera mikið traust til.
Traust til Katrínar Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna, stendur nánast í stað, dalar um rúmlega eitt prósentustig. Alls segjast 43,2 prósent treysta henni vel nú. Traust á hana hefur rýrnað um rúmlega 18 prósentustig síðan í desember í fyrra, þegar ríkisstjórnin hafði nýverið endurnýjað samstarf sitt.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, dalar um tvö prósent milli kannana og nýtur trausts 30 prósent svarenda. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, er sá leiðtogi stjórnarflokks sem nýtur minnsts trausts, en alls 23 prósent landsmanna segjast treysta honum vel.
Flestir vantreysta Bjarna og Jóni
Þrír ráðherrar njóta lítils trausts hjá meirihluta aðspurðra. Sá sem nýtur minnst trausts er Bjarni en alls segjast 61 prósent svarenda bera lítið traust til hans. Vantraustið á Bjarna hefur samt sem áður dregist saman síðan í apríl, þegar það mældist yfir 70 prósent. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra kemur fast á hæla Bjarna, en alls segjast 59 prósent svarenda vantreysta honum. Það eru átta prósentustigum fleiri en í vor. Sá ráðherra sem bætir við sig langmestu vantrausti er sá sami og tapar mestu trausti: Lilja D. Alfreðsdóttir. Samkvæmt könnun Maskínu bera nú 51 prósent svarenda lítið traust til hennar, sem er aukning upp á 16 prósentustig frá því í apríl.
Alls eykst vantraust á níu ráðherra en það dregst sama á þrjá. Þeir eru allir í Sjálfstæðisflokknum. Auk Bjarna er þar um að ræða Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Áslaugu Örnu.
Ásmundur Einar er sá ráðherra sem fæstir vantreysta, eða 26 prósent, en vantraust á hann eykst þó um átta prósentustig. Af formönnum stjórnarflokka vantreysta fæstir Katrínu, eða 37 prósent svarenda, og 40 prósent segjast bera lítið traust til Sigurðar Inga.