Stjórnarflokkarnir þrír hafa tapað samtals 4,2 prósentustiga fylgi frá síðustu kosningum og mælast nú með minnsta mögulega meirihlutafylgi, eða 50,1 prósent. Þeir dala líka á milli mánaða en í lok desember mældist fylgi þeirra 51,6 prósent. Staða stjórnarflokkanna mælist mjög svipuð og hún gerði þegar fjórir mánuðir voru liðnir af síðasta kjörtímabili.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur tapað tveimur prósentustigum af fylgi og mælist með 22,4 prósent stuðning, en er samt sem áður stærsti flokkur landsins. Framsóknarflokkurinn hefur tapað 0,3 prósentustigum af fylgi og mælist með 17 prósent stuðning og Vinstri græn mælast nú með 10,7 prósent fylgi, sem er 1,9 prósentustigum minna fylgi en flokkurinn fékk í kosningunum í september í fyrra. Vinstri græn mælast nú fimmti stærsti flokkurinn á þingi en voru annar stærsti eftir kosningarnar 2017 og þriðji stærsti eftir kosningarnar í fyrrahaust.
Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem greint er frá á síðu RÚV.
Þrír stjórnarandstöðuflokkar hafa bætt við sig fylgi það sem af er kjörtímabili. Píratar langmest, en fylgi þeirra mælist nú 12,5 prósent sem er 3,9 prósentustigum meira en flokkurinn fékk í síðustu kosningum. Samfylkingin hefur einnig bætt lítillega við sig og mælist nú með 10,8 prósent fylgi og Viðreisn hefur bætt við sig rúmu prósentustigi og mælist með 9,4 prósent fylgi. Samtals hafa þessir þrír flokkar bætt við sig 5,9 prósentustigum frá síðustu kosningum og myndu fá 32,7 prósent ef kosið yrði í dag og niðurstaðan yrði í samræmi við könnun Gallup.
Sósíalistaflokkur Íslands myndi fá 4,3 prósent atkvæða ef kosið yrði í dag, samkvæmt könnun Gallup, sem er aðeins meira en flokkurinn fékk í kosningunum í fyrrahaust en sú aukning er þó vel innan skekkjumarka.