Allir kerfislega mikilvægu bankarnir þrír hafa nú hækkað breytilega óverðtryggða húsnæðislánavexti sína í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabanka Íslands í síðustu viku. Íslandsbanki var síðastur til að gera það, en hann tilkynnti síðdegis í dag að breytilegur óverðtryggðir vextir myndu hækka um 0,1 prósentustig frá og með næstkomandi mánudegi, 17. október, og grunnvextir verða eftir það 7,5 prósent.
Landsbankinn hækkaði vextina hjá sér á miðvikudag um 0,25 prósentustig og breytilegir óverðtryggðir vextir hjá bankanum ertu nú 7,25 prósent. Arion banki fylgdi í fótspor hans í morgun og tilkynnti um sömu hækkun, sem setur breytilega óverðtryggða vexti á grunnláni hjá þeim banka í 7,59 prósent.
Þeir lífeyrissjóðir sem bjóða upp á breytilega óverðtryggða vexti hafa ekki tilkynnt um vaxtahækkanir eftir stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands. Gildi hafði þó tilkynnt um það áður að vextir þar myndu hækka upp í 6,7 prósent þann 24. október næstkomandi. Að óbreyttu verða þá ódýrustu breytilegu óverðtryggðu vextirnir hjá Lífsverki, en þeir eru 6,48 prósent á grunnláni.
Greiðslubyrði lána hefur hækkað gríðarlega
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í síðustu viku að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig, og upp í 5,75 prósent. Þar með hafa stýrivextir, sem ákvarða fjármagnskostnað heimila og fyrirtækja, verið hækkaðir við síðustu níu vaxtaákvarðanir nefndarinnar, en þeir voru 0,75 prósent í maí í fyrra.
Hækkun stýrivaxta skilar sér í hækkun á afborgunum óverðtryggðra lána sem eru með breytilega vexti. Í nýjasta Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands kemur fram að um 28 prósent útistandandi fasteignalána eru óverðtryggð og með breytilegum vöxtum. Samanlögð upphæð þeirra eru á sjöunda hundrað milljarða króna. Vaxtabyrði slíkra lána hefur þegar hækkað verulega.
Nú eru vegnir meðalvextir grunnlána hjá stóru bönkunum þremur komnir í um 7,45 prósent og afborganir þeirra sem eru með lán á breytilegum óverðtryggðum vöxtum hækkað enn frekar.
Óverðtryggðir vextir stóru bankanna þriggja, sem halda á 72 prósent af útistandandi íbúðarlánum, hafa ekki verið jafn háir og þeir eru nú síðan 2015.
Þá styttist í endurskoðun á vaxtakjörum fjölda óverðtryggðra lána sem veitt voru á föstum vöxtum til tiltekins tíma, en alls verða vextir á lánum upp á 340 milljarða króna endurskoðaðir á árunum 2023 og 2024 og vextir á lánum upp á 250 milljarða króna koma til endurskoðunar árið 2025. Þorri þeirra lána eru óverðtryggð.
Vaxtahækkunarferlinu mögulega lokið
Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar sem send var út samhliða því að greint var frá stýrivaxtahækkuninni sagði að vísbendingar væru til staðar um að vaxtahækkanir undanfarin misseri hafi hægt á vexti almennrar eftirspurnar og umsvifum á húsnæðismarkaði. Verðbólga mældist 9,3 prósent í september og hefur hjaðnað um 0,6 prósentustig frá ágústfundi peningastefnunefndar. „Undirliggjandi verðbólga jókst hins vegar milli funda. Þá eru vísbendingar um að verðbólguvæntingar séu farnar að lækka á ný þótt þær séu enn yfir verðbólgumarkmiði bankans.“
Samkvæmt bráðabirgðatölum þjóðhagsreikninga var 6,8 prósent hagvöxtur á fyrri hluta þessa árs. „Eftirspurn á þriðja fjórðungi ársins virðist hafa verið kröftug en útlit er fyrir að heldur hægi á umsvifum eftir því sem líður á veturinn. Nýlegar vísbendingar af vinnumarkaði benda jafnframt til þess að spenna í þjóðarbúskapnum hafi náð hámarki. Þá hafa alþjóðlegar efnahagshorfur versnað og óvissa aukist sem kann að leiða til þess að hraðar dragi úr innlendri eftirspurn en áður var gert ráð fyrir.“
Peningastefnunefnd sagði að hún muni áfram tryggja að taumhald peningastefnunnar sé nægjanlegt til að verðbólga hjaðni í markmið innan ásættanlegs tíma. „Peningastefnan mun á næstunni ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga. Ákvarðanir í atvinnulífi, á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum munu skipta miklu um þróun vaxta á næstu misserum.“