Í skýrslu sem Samtök iðnaðarins hafa látið taka sama kemur fram að alls voru 874 mál höfðuð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur vegna starfsemi fjármögnunarfyrirtækisins Lýsingar frá byrjun árs 2010 og til janúar 2015. Í 661 tilviki voru gagnaðilar Lýsingar einstaklingar, í 210 tilvikum fyrirtæki og í þremur málum var gagnaðilinn íslensk stjórnvöld. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að í janúar síðastliðnum hafa enn 510 dómsmál verið óleyst og að Lýsing hefði tekið til varnar í 77 prósent þeirra. Af þeim 364 málum sem er lokið lauk 136 málum með dómi eða efnislegum úrskurði, 134 málum með niðufellingu, 81 máli með áritun stefnu, 17 málum með dómsátt, fimm málum var vísað frá dómi og eitt málanna var sameinað öðru. Markmið skýrslu Samtaka iðnaðarins var að varpa ljósi á þau vandamál sem viðskiptavinir Lýsingar standa frammi fyrir, en þar vega þyngst deilur um gengistryggða fjármögnunarsamninga.
Vogunarsjóður áhrifamikill í Lýsingu
Eigandi Lýsingar er Klakki ehf., sem áður hét Exista, Helstu eigendur Klakka eru Arion banki, þrotabú Kaupþings og vogunarsjóðurinn Burlington Loan Management, stærsti kröfuhafi fallinna íslenskra fjármálafyrirtækja. Burlington á beint 13,4 prósent hlut í Klakka.
Hann er auk þess á meðal stærstu kröfuhafa Kaupþings sem á Arion banka. Ef slit Kaupþings yrðu kláruð yrði eignarhlutur Burlington í Klakka því mun hærri. Til viðbótar keypti Burlington 26 milljarða króna skuldir Lýsingar skömmu fyrir árslok 2013. Það er því ljóst að Burlington á mikilla hagsmuna að gæta í að Lýsing hámarki endurheimtir sínar.