Fjórir af hverjum tíu landsmönnum eru sáttir við skuldaleiðréttinguna, mun fleiri í aldursflokknum 50 ára og eldri eru ánægðir en þeir sem yngri eru og Reykvíkingar eru ósáttastir allra landsmanna. Þetta kemur fram í skoðannakönnun Fréttablaðsins um málið sem birt var í dag.
Niðurstöður hennar sýna að 41 prósent svarenda voru sáttir við aðgerðina, 32 prósent ósáttir, 22 prósent voru óákveðnir í afstöðu sinni og fimm prósent aðspurðra kusu að svara ekki. Þegar einungis var horft til þeirra sem tóku afstöðu voru 56 prósent sátt við skuldaniðurfellingarnar en 44 prósent á móti.
Um 95 prósent þeirra sem kusu Framsóknarflokkinn eru sáttir með aðgerðirnar og 84 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins. Óánægjan er því að langmestu leyti hjá öðrum kjósendum en þeirra.
Hjá þeim sem tóku afstöðu í aldurshópnum 18 til 49 ára var afstaðan til aðgerðanna algörlega klofin. Helmingur var sáttur en helmingur ósáttur. Í aldursflokknum 50 ára og eldri sagðist hins vegar 63 prósent vera sátt með niðurstöðuna en 37 prósent ósátt.
Skoðannakönnun Fréttablaðsins var gerð 12. og 13. nóvember. Við gerð hennar var hringt í 1.244 manns eða þar til náðst hafði í 800 manns. Svarhlutfall var því 64,3 prósent. Úrtakið er lagskipt slembiúrtak.