Allt að 7.700 verðmunur er á þjónustu við dekkjaskipti fyrir jeppa af stærri gerðinni með álfelgu af stærð 265/70R17. Þetta kemur fram í verðkönnun sem verðlagseftirlit ASÍ gerði hjá 21 hjólbarðaverkstæði víðsvegar um landið þann 8. apríl síðastliðinn. Dekkjaverkstæðið Titancar var alltaf með lægsta verðið á dekkjaþjónustu.
Mestur verðmunur var á þjónustu við áðurnefnd dekkjaskipti sem var ódýrust á 5.500 krónur hjá Titancar en dýrust á 13.197 krónur hjá Gúmmívinnustofunni SP dekk. Verðmunurinn var 7.697 eða 140 prósent. Fyrir stálfelgu var sama verð hjá Titancar en dýrast sem fyrr hjá SP dekkjum, 12.384 krónur, verðmunurinn í því tilviki var 6.884 krónur eða 125 prósent.
Minnstur verðmunur var á dekkjaskiptum fyrir meðalbíl á 16 tommu stálfelgum, sem var sem fyrr ódýrust hjá Titancar, 4.500 krónur, og dýrust hjá SP dekkjum, 8.125 krónur. Verðmunurinn var 3.620 krónur eða 80 prósent.
Fyrir smábíl á 14 tommu álfelgum var þjónustan ódýrust á 4.000 krónur hjá Titancar en dýrust á 8.120 hjá Gúmmívinnustofunni SP dekkjum. Verðmunurinn 103 prósent. Ef um stálfelgu var að ræða var verðmunurinn 80 prósent.