„Viðbrögðin í gær, bæði út á við og inn á við á lokuðum síðum flokksmanna, sýndu afdráttarlaust að allur þorri flokksmanna er kominn með upp í kok af framgangi borgarstjórnarflokksins,“ segir Stefán Bogi Sveinsson, sem situr í bæjarstjórn og bæjarráði Fljótdalshéraðs fyrir hönd Framsóknarflokksins, á facebook-síðu sinni í umræðum viðbrögð flokksins við skipan Gústafs Níelssonar sem fulltrúa flokksins í Mannréttindaráð Reykjavíkurborgar.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir.
Stefán Bogi segir að það sé ekki hægt að neita því að það hafi verið Framsóknarflokkurinn sjálfur sem reis upp í gær og neyddi borgarfulltrúa flokksins, þær Sveinbjörgu Birnu Sveinbjarnardóttur og Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, til að snúa við ákvörðun sinni um að skipa Gústaf í ráðið „því ef við vitum eitthvað um borgarstjórnarflokk Framsóknar og flugvallarvina, þá vitum við að almenn umræða úti í samfélaginu hefur engin áhrif á þær. En harkaleg viðbrögð flokksfélaga víða um land, þingmanna, ráðherra og ritara Framsóknarflokksins, auk skýrra skilaboða frá formanni flokksins höfðu sín áhrif“.
Skipan Gústaf í ráðið vakti hörð viðbrögð í gær þar sem hann hefur tjáð sig mjög opinskátt um andúð á samkynhneigð og múslimum. Borgarstjórnarflokkur Framsóknar og flugvallarvina dró skipan Gústafs til baka í gær og sagði hana hafa verið „mistök“.