„Tap Strætó aldrei verið meira“, „Strætó tapaði 600 milljónum á hálfu ári“, „Strætó aldrei tapað jafn miklu“ og „Strætó tapar 100 milljónum á mánuði“.
Svona hljóðuðu fyrirsagnir nokkurra fjölmiðla í síðustu viku, í kjölfar þess að rekstrarniðurstaða Strætó á fyrstu sex mánuðum ársins rataði í fréttir.
Eins og Kjarninn sagði frá telur Strætó sig þurfa 750 milljóna króna aukaframlag frá eigendum sínum, sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu, til þess að koma rekstrinum á réttan kjöl.
Samkvæmt fjárhagsáætlun Strætó fyrir 2022 er gengið út frá því að sveitarfélögin setji rúma 4,16 milljarða króna í reksturs Strætó á þessu ári, auk þess sem ríkið veiti 909 milljónum króna inn í reksturinn, sem er svipuð upphæð og komið hefur frá ríkinu til rekstrar Strætó síðan árið 2012.
Ef aukið framlag fæst frá eigendum, eins og Strætó gerir sér vonir um, munu opinber útgjöld til almenningssamgöngufyrirtækisins því alls nema 5,82 milljörðum króna á þessu ári. Það yrði þannig heildargjaldið sem samfélagið á endanum greiðir fyrir almenna þjónustu gulu vagnanna, fyrir utan það framlag sem sveitarfélög standa straum af vegna Pant, sem annast ferðaþjónustu fatlaðra.
Í þessu ljósi eru fréttir af mettapi Strætó ef til vill ekki mjög upplýsandi, þar sem eins og í öðrum opinberum rekstri þýðir tapið ekki annað en það að áætlanir sem lagt var upp með hafa ekki staðist.
Í tilfelli Strætó er kórónuveirufaraldurinn enn að hafa áhrif. Kjarninn ræddi þessi mál við Alexöndru Briem borgarfulltrúa Pírata og fulltrúa Reykjavíkurborgar í stjórn Strætó á dögunum.
„Það er bara þannig að reksturinn á Strætó hefur verið erfiður í COVID og við fengum ekki þann stuðning sem við gerðum ráð fyrir frá ríkinu vegna COVID-aðgerða,“ segir Alexandra, en í fjárhagsáætlun Strætó fyrir árið 2021 var gert ráð fyrir 1,8 milljarða framlagi frá ríkinu. Þegar upp var staðið varð framlag ríkisins hins vegar rétt rúmur milljarður.
Almenningssamgöngum ætlað að búa til samfélagslegan ágóða
Alexandra segir að fyrir liggi að brúa þurfi það bil með einhverjum hætti. „Þá er um að ræða skuldsetningu, að draga úr þjónustu eða að fá meira fé frá sveitarfélögunum og við erum ekki spennt fyrir því að draga úr þjónustu eða fara í svo mikla skuldsetningu fyrir rekstri,“ segir Alexandra.
Hún bendir á það, í samtali við Kjarnann, að rétt eins og ýmis önnur þjónusta sem hið opinbera veitir er almenningssamgöngum „ekki ætlað að koma út í plús, þeim er ætlað að búa til samfélagslegan ágóða.“
„Þeim er ætlað að draga úr mengun, draga úr traffík og bæta lífið. Það er ekki hægt að gera þá kröfu að þær séu reknar á núlli,“ segir Alexandra, en bætir við að á sama tíma þurfi að stilla reksturinn af með framlögum og að ríkið og sveitarfélögin þurfi að „vera skýr á því hverjar þeirra væntingar eru til þess að standa í þessum rekstri.“
Hún segir ekki útséð með hvernig samtal eigenda um fjárþörf Strætó muni lykta og spurð hvort útilokað sé að Strætó verði gert að draga saman seglin segir Alexandra:
„Auðvitað get ég ekki útilokað neitt, en ég get ekki séð að Reykjavíkurborg myndi vilja fara þá leið. Það er bara vitað að það er mjög auðvelt að missa fólk frá Strætó þegar þjónusta er dregin saman og það tekur langan tíma að fá fólk til baka þegar þjónustan batnar. Það er dýrt skref út frá grundvelli hugmyndarinnar á bak við Strætó að fara í einhverjar þjónustuskerðingar.“
Hún bætir því við að hún telji að svigrúm Strætó til þess að hagræða í rekstrinum sé orðið lítið. „Það sem hvílir þungt á Strætó núna er það að í COVID dróst notkunin alveg gríðarlega mikið saman,“ segir Alexandra og bætir því við að Strætó hafi átt von á að fá meiri stuðning frá ríkinu þar sem tekjufallið fyrirtækisins hafi verið vegna opinberra sóttvarnaráðstafana, en ekki einhvers sem Strætó eða eigendur félagsins gátu stjórnað.
Framlög ríkisins voru hins vegar sambærileg svipuð árin 2020 og 2021 og þau hafa verið á ári hverju frá 2012, er sérstakur samningur um aukinn hlut almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu var undirritaður. Þau framlög hafa ekki hækkað í takti við verðlag síðan þá.