Þeir sem töldu sig eiga kröfu á hendur slitabúum föllnu bankanna hér á landi höfðu 29 daga til að lýsa þeim kröfum eftir að Alþingi samþykkti lög í tengslum við slit þeirra og losun fjármagnshafta. Þessi stutti frestur var settur inn í lögin að beiðni Kaupþings, segir ViðskiptaMogginn í dag.
Það hafi verið þrýstingur frá slitastjórn Kaupþings sem olli því að ákvæði var sett í lög um að lýsa þyrfti kröfum fyrir 15. ágúst. Þessi krafa hafi komið til af ótta Kaupþings við yfirvofandi kröfulýsingu Vincents Tchenguiz. Ákvæðið sem var sett í lögin er í samræmi við tillögu slitastjórnar Kaupþings til Alþingis sem var sett fram í umsögn um lögin. Þar er reyndar lagt til að fresturinn sé styttur til 15. júlí.
Í Morgunblaðinu í dag er rætt um þetta við Hróbjart Jónatansson hæstaréttarlögmann, sem segir að tímafresturinn hafi orðið til þess að takmarka réttindi þeirra kröfuhafa sem hefðu ætlað sér að lýsa kröfum í slitabúin fram að atkvæðagreiðslu um nauðasamning, en fram að breytingunni í sumar gerðu lögin ráð fyrir að það væri hægt.
„Það er einkennilegt í ljósi þess hversu skammur fresturinn er að löggjafinn hafi ekki lagt þær kvaðir á slitastjórnirnar að auglýsa þessa lagabreytingu um þrengri kröfulýsingarfrest eða gera sérstaka innköllun á mögulegum búskröfum á grunni hennar. Lögin voru ekki þýdd á ensku og gerð aðgengileg útlendingum, eftir því sem ég best veit. Þau eru samþykkt á Alþingi og birt 18. júlí þegar langflestir eru í sumarleyfi,“ segir Hróbjartur.
Honum finnst líka sérstakt að farið hafi verið að þessari beiðni þar sem það verði ekki séð að almannahagsmunir eða áform slitabúanna um nauðsamninga hafi kallað á þessar breytingar.
Hann telur líklegt að þessi „örstutti frestur“ verði til þess að margir muni láta reyna á rétt sinn fyrir dómstólum, sem muni auka álag á þá og auka flækjustigið í uppgjöri búanna.