Alþjóðlegur baráttudagur kvenna er haldinn í dag, 8. mars. Af því tilefni hefur UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem vinnur í þágu kvenna og jafnréttis, hleypt af stokkunum herferðinni Step It Up, eða spýtum í lófana, sem miðar að því að fá stjórnvöld til þess að hraða aðgerðum í þágu jafnréttis. Stofnunin vill að miðað verði við að kynjamisrétti verði útrýmt fyrir árið 2030.
Tuttugu ár eru liðin á þessu ári frá því að fjórða heimsráðstefnan um málefni kvenna var haldin í Peking í Kína. Þar undirrituðu 189 ríki aðgerðaáætlun fyrir auknu jafnrétti kynjanna, Peking-sáttmálann. UN Women fagnar þessum tímamótum í dag, og vill hampa þeim sigrum sem hafa áunnist, en um leið brýna stjórnvöld til að gera betur.
Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, á blaðamannafundi vegna herferðarinnar. (MYND/UN WOMEN)
„Jafnrétti kynjanna verður að nást fyrir árið 2030. Til að koma í veg fyrir að börn sem fæðast í dag þurfi ekki að bíða í 80 ár eftir fullkomnu jafnrétti í heiminum, þarf að hraða framfaraferlinu. Hingað til hefur það farið fram á hraða snigilsins. Spýtum í lófana og byggjum upp heim þar sem konur, helmingur mannskyns, eru jafnar körlum á öllum sviðum fyrir árið 2030,“ segir Phumzile Mlambo-Ngcuka, framkvæmdastýra UN Women, í ræðu sinni í tilefni dagsins.
Stofnunin hefur tekið saman upplýsingar um stöðu jafnréttismála í heiminum, eins og sjá má hér að neðan.