Alþýðusamband Íslands telur að íslenska ríkið hafi getu til þess að fjármagna stórar samgönguframkvæmdir upp á eigin spýtur, án þess að ráðist verði í svokölluð samvinnuverkefni við einkaaðila, öðru nafni einkaframkvæmdir.
Það setur einnig fram efasemdir um þá stefnu sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum, að nýframkvæmdir í samgöngum verði fjármagnaðar með sérstakri gjaldtöku, í athugasemdum sem hagfræðingur ASÍ, Róbert Farestveit, skilaði inn í samráðsgátt stjórnvalda fyrr í mánuðinum við drög að Grænbók um samgöngumál.
Í umsögn hagfræðingsins segir að í Grænbókinni, sem unnin er í samgönguráðuneytinu og hefur að geyma lýsingu á helstu þáttum samgöngumála, sé helst staldrað við þann kafla sem fjallar um fjármögnun samgönguinnviða.
Hagfræðingur ASÍ gerir athugasemdir við þá fullyrðingu að þörf sé orðin til staðar fyrir „nýja nálgun“ í fjármögnun verkefna vegna óvenju lágra opinberra framlaga til samgönguframkvæmda samhliða örum vexti ferðaþjónustu á undanförnum árum.
„Engin tilraun er gerð til að rökstyðja þá fullyrðingu og einhverjir hefðu freistast til að álykta að viðbrögð við slíku ófremdarástandi gætu ef til vill falist í auknum framlögum til málaflokksins,“ segir í umsögninni frá ASÍ.
Veggjöld og flýtigjöld eru á dagskránni
Í Grænbókinni er reifað að ný nálgun stjórnvalda feli í sér að tekin verði upp veggjöld og flýtigjöld í umferðinni, til að fjármagna stórar nýframkvæmdir og þær framkvæmdir sem felast í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þetta eru ákvarðanir sem hafa verið teknar á vettvangi stjórnmálanna á undanförnum árum.
Í fyrra voru samþykkt lög á Alþingi sem fela í sér að heimilt verður að framkvæma sex ný samgönguverkefni í samstarfi við einkaaðila sem síðan verða greidd niður með veggjöldum. Samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er svo gert ráð fyrir því að 60 milljarðar af þeim 120 milljörðum sem áætlað er að verja til framkvæmda við stofnvegi, Borgarlínu og hjólaleiðir á svæðinu til 2033 komi til vegna flýti- og umferðargjalda.
Í umsögn ASÍ kemur fram að sambandið sé ósammála þessari nálgun og að verið sé með þessu að hverfa frá þeirri „samfélagslegu sátt“ að fjármagn stýri ekki aðgengi að samgönguinnviðum.
„Alþýðusamband Íslands gerir engan ágreining um að opinber fjárframlög til samgöngumála hafi um langt skeið verið ófullnægjandi. Raunar hefur ASÍ um árabil lýst yfir áhyggjum af samdrætti í fjárfestingum hins opinbera.
Leggja ber áherslu á að uppsöfnuð fjárfestingaþörf var til staðar áður en núverandi efnahagskreppa af völdum COVID-faraldursins hófst. Í stuttu máli hefur opinber fjárfesting ekki tekið mið af mannfjölgun og breytingum samfélags, atvinnulífs og umhverfis. Gera verður alvarlegar athugasemdir við þá skammsýni og slöku forgangsröðun sem skapað hefur ríkjandi ástand,“ segir í umsögninni frá ASÍ, sem telur að „nauðsynleg fjárfesting í innviðum og viðhald á þeim sé hluti af eðlilegum rekstri samfélagsins.“
Ráðuneytið segir samfélagslegt samþykki fyrir veggjöldum helstu áskorunina
Í Grænbókinni sem ráðuneytið hefur unnið segir að helsta áskorun fjármögnunar samgönguinnviða með innheimtu veggjalda sé „samfélagslegt samþykki“ og minnst er á að í samtímasögunni séu bæði dæmi um að þetta hafi tekist vel, eins og hvað Hvalfjarðargöng varðar, en líka illa, varðandi Keflavíkurveg.
Í skýrslunni segir að á samráðsfundum sem haldnir voru um allt land á meðan verið var að vinna að Grænbókinni hafi komið fram mikill stuðningur við sértæka gjaldtöku sem flýtt gæti uppbyggingu samgöngumannvirkja og að 86 prósent fundarmanna hafi verið fylgjandi slíku í örkönnunum sem framkvæmdar voru á þessum samráðsfundum.
Í umsögn ASÍ kemur fram að sambandið sé ekki sammála því að samfélagslegt samþykki sé helsta áskorunin, þar sem því fari „víðs fjarri að borin hafi verið fram sannfærandi rök fyrir því að einkaframkvæmdir á sviði samgöngumála séu beinlínis til hagsbóta fyrir almenning“ og raunar bendi fyrirliggjandi upplýsingar til hins gagnstæða.
Bent er að á að ekki sé tiltekið í drögum að Grænbókinni það sem fram kemur í greinargerð með frumvarpi um samvinnuverkefnin, að reynsla frá Evrópu sýndi fram á að vegna tilfærslu á áhættu og hærri fjármagnskostnaðar einkaaðila hefðu svokölluð samvinnuverkefni kostað 20-30 prósent meira en verkefni sem fjármögnuð hefðu verið með hefðbundinni aðferð.
„Við hæfi sýnist að minna á að lánakjör eru nú um stundir óvenju hagstæð á alþjóðlegum mörkuðum líkt og komið hefur fram í nýlegum lántökum íslenska ríkisins,“ segir í umsögn ASÍ, þar sem einnig er minnt á að hið opinbera gengst iðulega í ábyrgð fyrir slíkar framkvæmdir.
„Standist áætlanir ekki er almenningi gert að greiða umframkostnaðinn. Reynslan er vel þekkt á Íslandi; hagnaðurinn er einkavæddur en tapið lendir á almenningi,“ segir í umsögninni.