„Þetta er algjörlega óboðlegt,“ segir lögmaðurinn Magnús Davíð Norðdahl um að unnið sé að því að koma hópi umbjóðenda hans úr landi, aðeins nokkrum dögum áður en afstaða stjórnvalda til endurupptökubeiðna í verndarmálum þeirra liggi fyrir.
Þrír umsækendur um alþjóðlega vernd sem eru í hópi skjólstæðinga Magnúsar, hafa verið handteknir, þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald og er haldið í fangelsinu á Hólmsheiði. Mál þeirra allra og tuga til viðbótar eru að mati Magnúsar sambærileg máli hælisleitenda sem dómur féll í um miðjan október. Niðurstaða héraðsdóms var sú að óheimilt hefði verið að synja honum um endurupptöku máls síns vegna ásakana um tafir. „Núna, þegar liðnir eru um tvær vikur frá því að kröfur um endurupptöku mála annarra í sambærilegri stöðu voru sendar stjórnvöldum, og svar væntanlegt á allra næstu dögum, þá er lögreglan að leita að þessu fólki. Og þrír af okkar umbjóðendum eru í gæsluvarðhaldi núna.“
Magnús átti fundi með umbjóðendum sínum í fangelsinu í morgun. Lögreglan krafðist gæsluvarðhalds þar sem hún taldi hættu á því að þeir myndu flýja áður en að framkvæmd brottvísunar kæmi. Héraðsdómur féllst á þær röksemdir en Magnús hefur vísað málinu til Landsréttar. Áður en niðurstaða hans liggur fyrir telur má telja líklegt að búið verði að flytja mennina úr landi í lögreglufylgd.
Algjörlega óboðlegt
„Í stað þess að stjórnvöld bíði eftir niðurstöðu kærunefndar [útlendingamála] sem er væntanleg á allra næstu dögum að þá er drifið í því, og eytt fjármunum og mannafla í það, að elta uppi og færa úr landi aðila sem mögulega eiga eftir að fá mál sín endurupptekin,“ segir Magnús. „Af hverju bíða stjórnvöld ekki eftir niðurstöðu endurupptökubeiðnanna? Þetta er algjörlega óboðlegt.“
Fólkið sem vísa á úr landi á það sameiginlegt að hafa sótt hér um vernd skömmu fyrir eða í kórónuveirufaraldrinum. Á meðan hann stóð voru eins og allir muna settar á harðar ferðatakmarkanir og á löngu tímabili var engum vísað úr landi. Fólkið, sem m.a. er á flótta frá Palestínu, ílengdist því hér. Stjórnvöld sökuðu það margt hvert um að hafa tafið mál sín m.a. með því að hafna því að fara í COVID-próf.
Einn palestínski hælisleitandinn fór í mál við ríkið og í niðurstöðu héraðsdóms sagði m.a.: „Að öllu framangreindu virtu telur dómurinn að ekki hafi verið réttmætt að leggja til grundvallar að stefnandi bæri ábyrgð á þeirri töf sem varð á meðferð máls hans og leiddi til þess að ekki varð af flutningi hans innan 12 mánaða frestsins. Var úrskurður kærunefndar útlendingamála að þessu leyti byggður á efnisannmarka sem telst verulegur. Þegar af þeirri ástæðu verður fallist á kröfu stefnanda um að ógiltur verði úrskurður nefndarinnar frá 18. nóvember 2021 þar sem synjað var beiðni hans um endurupptöku málsins.“
Mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar
Helgi Þorsteinsson lögmaður sótti málið fyrir Palestínumanninn og taldi líkt og Magnús að dómurinn væri fordæmisgefandi fyrir þann fjölmennahóp hælisleitenda sem ílengdist hér vegna faraldursins. „Að fengnum dómnum er ljóst að stjórnvöldum er ekki stætt á öðru en að bregðast við og koma í veg fyrir mestu fjöldabrottvísanir Íslandssögunnar,“ sagði Helgi við Kjarnann er dómurinn féll í október.
Í kjölfar dómsins segist Magnús hafa átt von á því að stjórnvöld yrðu fljót að afgreiða endurupptökubeiðnir í öðrum sambærilegum málum. Auk þeirra voru sendar sérstakar beiðnir til Útlendingastofnunar og stoðdeildar ríkislögreglustjóra um frestun framkvæmda. Að beðið yrði með að vísa fólkinu úr landi þar til kærunefnd útlendingamála hefði fjallað um endurupptökubeiðnirnar.
Engin svör bárust.
„Með hliðsjón af dómnum sem féll, og að framkvæmdin er mjög sambærileg frá máli til máls, þá er þetta náttúrlega alveg galið,“ segir Magnús um stöðuna nú, „alveg sama hvaða mælikvarða þú setur á það.“
Stjórnvöld hafa ekki áfrýjað dómi héraðsdóms en frestur til slíks er ekki útrunninn. Kærunefnd hefur ekki enn tekið afstöðu til endurupptökubeiðnanna. Þannig liggur að mati Magnúsar ekki enn fyrir hvort að stjórnvöld, sem kærunefnd er hluti af, túlki niðurstöðu héraðsdóms með sama hætti og hann og Helgi, þ.e. að málið sé fordæmisgefandi og að hópur hælisleitenda eigi rétt á að fá mál sín tekin upp að nýju og til efnismeðferðar.
Ekkert gert fyrr en dómur lá fyrir
Mánuðum saman hafi lögreglan engin afskipti haft af fólkinu. En svo allt í einu, eftir að dómur sem lögmenn telja fordæmisgefandi er kveðinn upp, og endurupptökubeðinir sendar stjórnvöldum, fer lögreglan að „leita að mönnunum“ eins og Magnús orðar það, í þeim tilgangi að vísa þeim úr landi, senda þá til Grikklands þar sem aðstæður fyrir fólk á flótta eru erfiðar og jafnvel hættulegar.
Stjórnvöldum ber ekki lögum samkvæmt að bíða eftir niðurstöðu kærunefndar útlendingamála. En líkt og Helgi orðar það er ráðist í lögregluaðgerðir þegar niðurstaða um endurupptöku „er rétt handan við hornið“.
Tapar enginn á því að bíða
Allir sem þarna eru undir eiga að okkar mati rétt á efnismeðferð, segir Magnús. En stjórnvöld séu ekki einu sinni búin að svara því hvort þau eru sammála. „Það tapar enginn á því að bíða í nokkra daga.“
Magnús og Helgi hafa ekki fengið svör um hvenær nákvæmlega skjólstæðingar þeirra verða fluttir í lögreglufylgd úr landi en telja að það gerist síðar í þessari viku.
Jafnvel á morgun.