Alvogen, sem er stýrt af Róberti Wessmann fyrrverandi forstjóra Actavis, gerði formlegt tilboð í verksmiðju Actavis í Hafnarfirði fyrir um tveimur vikum. Alvogen vildi að hluti þeirrar framleiðslu sem fer fram í verksmiðjunni myndi fylgja með í kaupunum, og að sá hluti yrði íslenski markaðurinn. Tilboðinu var ekki tekið. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag og þar segir að tilboðið hafi verið upp á tæpan fjóran og hálfan milljarð króna.
Actavis tilkynnti í byrjun viku að fyrirtækið ætlaði sér að loka umræddri verksmiðju árið 2017. Um 300 manns munu missa vinnuna þegar það gerist.
Róbert segir í samtali við Fréttablaðið að samningar hafi ekki náðst. "Það eru auðvitað dapurleg tíðindi ef þessi starfsemi leggst af en við teljum að hægt sé að finna rekstrargrundvöll fyrir verksmiðjuna hér á landi. Við höfum enn þá áhuga á að skoða kaup á þessari starfsemi en nauðsynlegt er að einhver framleiðsla fylgi með í þeim kaupum. Við höfðum hugsað okkur að íslenski markaðurinn fylgdi með."
Ásdís Ýr Pétursdóttir, sviðsstjóri samskiptasviðs Actavis, segir það stefnu fyrirtækisins að tjá sig ekki um sögusagnir.