Egill Ólafsson, blaðamaður á Morgunblaðinu og mbl.is, lést miðvikudaginn 28. janúar síðastliðinn, 52 ára að aldri.
Egill fæddist 16. nóvember 1962, sonur hjónanna Ólafar Guðmundsdóttur og Ólafs Egilssonar. Hann ólst upp í Borgarnesi og á Mýrum. Gekk í Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lauk BA-prófi í sagnfræði frá HÍ árið 1989. Starfaði að námi loknu sem blaðamaður á Tímanum. Egill hóf störf á Morgunblaðinu árið 1993 og starfaði þar til dánardags, aðallega á mbl.is seinni árin. Hann gegndi um hríð starfi fréttastjóra Morgunblaðsins. Í ársbyrjun árið 2014 fór hann í tveggja ára leyfi til að skrifa sögu Borgarness og var kominn vel á veg með það verk er hann féll frá, að því er segir í andlátsfregn á mbl.is.
Samúðarkveðja
Það er sorglegt að Egill Ólafsson sé fallinn frá, alltof snemma. Eftirminnilega góður drengur og þægilegur í samstarfi. Hann var einnig úrræðagóður og duglegur í stjórn Blaðamannafélagsins og reyndist blaðamannastéttinni vel. Hann var skarpur og skemmtilegur, eins og samstarfsmenn hans í gegnum tíðina vita. Hann kenndi samstarfsfólki sínu mikið með vandvirkni sinni og skarpri hugsun, ekki síst okkur sem yngri erum, og gat verið fastur fyrir þegar þess þurfti. Nú síðast fengum við að fylgjast með skemmtilegum frásögnum frá Asíu úr ferðalaginu með Urði dóttur hans. Magnað efni og vandað hjá þeim, eins og fylgdi Agli allan hans blaðamannaferil.
Ritstjórn Kjarnans sendir innilegar samúðarkveðjur til aðstandenda Egils og stórfjölskyldu.