„Við þurfum aðeins að ræða Noreg.“ Þannig hóf þingmaður Pírata, Andrés Ingi Jónsson, mál sitt undir liðnum störf þingsins á Alþingi í vikunni.
Hann sagði að Noregur væri eins og önnur ríki Norðurlandanna forysturíki í loftslagsmálum en á sama tíma eitt ágengasta olíuleitarríki Evrópu, ekki bara eitt ágengasta heldur það allra ágengasta.
Benti hann á að þetta hefði komið fram í skýrslu, gefin út af Oil Change International, þar sem farið hefði verið yfir tölulegar staðreyndir í Noregi.
Norsk stjórnvöld gefið út 700 leyfi til leitar að olíu og gasi í norskri lögsögu síðustu 10 ár
„Síðustu tíu árin hafa norsk stjórnvöld gefið út 700 leyfi til leitar að olíu og gasi í norskri lögsögu sem er meira en 47 árin þar áður. Þau olíu- og gassvæði sem þegar hefur verið gefið leyfi til að vinna úr myndu losa þrjú gígatonn af koltvísýringi sem er sextíuföld losun Noregs sjálfs.
Og nú eru norsk stjórnvöld að veita leyfi fyrir tímasprengju nyrst í Barentshafi, svokallað Wisting-svæði sem gæti losað 200 milljón tonn af koltvísýringi ef sú olía myndi öll líta dagsins ljós og henni yrði brennt,“ sagði hann.
Andrés Ingi sagði að það væri vegna Noregs sem Ísland þyrfti að banna olíuleit innan íslenskrar lögsögu og það væri vegna Noregs og annarra slíkra ríkja sem Íslendingar þyrftu að ganga í alþjóðlegt samband ríkja sem hafa snúið baki við olíu- og gasleit. Hann benti á að Ísland hefði ekki getað gengið í sambandið á síðustu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna vegna þess að ríkisstjórnin hefði ekki fengið sig til að samþykkja frumvarp hans um olíuleitarbann síðastliðið vor.
„Þannig og aðeins þannig geta íslensk stjórnvöld mætt á fundi ásamt Danmörku og Svíþjóð, sem hafa gengið í þetta bandalag, og sagt: Elsku Noregur, hættu þessu rugli.“