Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata segir að þegar uppi er staðið snúist rannsókn undirbúningskjörbréfanefndar um það hvort vilji kjósenda hafi komið rétt fram – hvort að þær tölur sem úthlutun kjörbréfa byggir á séu í samræmi við þau atkvæði sem skiluðu sér í kjörkassana.
Þetta kom fram í máli hans á Alþingi í dag en þar ræða þingmenn nú talningaklúðrið í Norðvesturkjördæmi. Meirihluti kjörbréfanefndar sem er skipaður sex fulltrúum Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Flokks fólksins, leggur til að öll útgefin kjörbréf, 63 talsins, verði staðfest. Og ekki verði gripið til neinnar uppkosningar í Norðvesturkjördæmi.
Spurði þingmaðurinn Birgi Ármannsson þingmann Sjálfstæðisflokksins og formann nefndarinnar hver úrslit kosninganna hefðu í raun verið. „Hver er niðurstaðan í Norðvesturkjördæmi? Hverjar eru atkvæðatölurnar þar?“
Birgir svaraði og sagði að meirihlutinn í nefndinni teldi að úrslit kosninganna hefðu birst í þeim tölum sem yfirkjörstjórn Norðvesturkjördæmis skilaði landskjörstjórn og var grundvöllur úthlutunar þann 1. október síðastliðinn. „Að teknu tilliti til þeirra smávægilegu frávika sem við fundum við ítarlega yfirferð allra kjörgagna sem gefa ekki tilefni til þess að úrslit kosninganna hafi með neinum hætti breyst.
Þar var um að ræða örfá atkvæði sem höfðu verið flokkuð vitlaust og við greindum í okkar yfirferð en að öðru lagi hefur enginn dregið í efa að kjörseðlarnir eða kosningagögnin sem við rannsökuðum og geymd eru í fangaklefa lögreglunnar í Borgarnesi séu rétt. Það sem er dregið í efa er að varsla kjörgagnanna hafi verið fullnægjandi og nefndarmenn sammála um það að sú varsla var ekki fullnægjandi en það er ekkert sem bendir til þess að átt hafi verið við gögnin á þessu tímabili og við byggjum okkar niðurstöðu á því,“ sagði Birgir.
„Kúnstug“ sönnunarbyrði
Andrés steig aftur í pontu og sagði að honum fyndist sú „öfugsnúna sönnunarbyrði“ sem kæmi fram hjá Birgi kúnstug. „Ég hefði einmitt haldið að það þyrfti ekki að sýna fram á brot til þess að við vildum hafa vaðið fyrir neðan okkur í kosningum og þurfum þess vegna að endurtelja ef yfirkjörstjórn í Norðvesturkjördæmi hefði ekki haft þann möguleika af okkur með því að rjúfa ábyrgðakeðjuna með því að innsigla ekki gögnin.
En það endurspeglar bara þetta hyldjúpa rugl í þessu máli að við séum með þrjár tölur. Háttvirtur þingmaður sagði að það væri seinni talningin sem væri miðað við.“
Tók hann Viðreisn sem dæmi. „Viðreisn fékk 1.072 atkvæði í Norðvesturkjördæmi í fyrri tölum. Missti níu atkvæði í seinni talningu og síðan fundust tvö atkvæði sem væntanlega hefðu verið dæmd ógild við afstemmingu undirbúningsnefndarinnar. Miðflokkurinn fór úr 1.283 atkvæðum yfir í 1.278 og svo er líka hægt að segja að hann hafi fengið 1.279 atkvæði.
Þó að þessar tölur einar og sér þegar þær eru settar inn í reiknilíkan landskjörstjórnar breyti ekki heildarúthlutun þá gefa þær fullt tilefni til þess að við efumst um allt sem er að borðinu í Norðvesturkjördæmi. Í fullkomnum heimi myndum við endurtelja þetta frá botni en við getum það ekki vegna þess að það er búið að menga kjörgögnin. Hvernig í ósköpunum fær meirihluti nefndarinnar það út að það sé hægt að láta þessar tölur standa en ekki mæla með uppkosningu?“ spurði Andrés Ingi.
Nefndin hefur „enga ástæðu“ til að rengja seinni tölurnar
Birgir svaraði í annað sinn og sagði að þetta væri kjarni málsins. „Við byggjum á því að tölurnar í seinni talningunni séu réttar. Yfirferð okkar í Borgarnesi í fleiri en eitt skipti og fleiri en tvö fólst í því að kanna kjörgögnin, hvort einhver ummerki væru um að kjörgögnin væru menguð, eins og háttvirtur þingmaður tók til orða. Það sem ítarleg athugun okkar í síðustu ferð leiddi í ljós var að um var að ræða stakar flokkunarvillur til viðbótar við það sem áður hafði komið fram. Við fórum í miklu ítarlegri könnun á gögnunum vegna þess að við sáum þetta.
Þannig að við höfum í nefndinni enga ástæðu til að rengja þær tölur sem þarna koma fram og þar sem kemur að mati að gallanum þá förum við auðvitað í það að skoða hvort að einhver ummerki – einhverjar vísbendingar, eitthvað – hafi komið fram sem bendir til þess að átt hafi verið við kjörgögnin. Svo var ekki. Svo var ekki. Svo einfalt er það mál.“