Andri Guðmundsson mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri H.F. Verðbréfa um áramótin. Andri hefur starfað hjá fyrirtækinu frá árinu 2005 og gegnt stöðu framkvæmdastjóra frá því í janúar 2011. Þetta kemur fram í tilkynningu frá H.F. Verðbréfum.
„Það hefur verið afar lærdómsríkt að stýra H.F. Verðbréfum undanfarin fjögur ár. Þetta hafa verið annasöm en um leið góð ár í rekstri fyrirtækisins. Nú er aftur á móti komið að tímamótum í lífi mínu og fjölskyldu minnar þar sem við hyggjumst flytja út fyrir landsteinana, nánar tiltekið til Stokkhólms. Ég mun áfram gegna starfi forstöðumanns fyrirtækjaráðgjafar H.F. Verðbréfa en taldi, í samráði við stjórn fyrirtækisins, best að fela nýjum manni framkvæmdastjórastöðuna,“ segir Andri í tilkynningu.
Ekki hefur verið tilkynnt um eftirmann Andra í starfi, en gengið verður frá skipan í starfið á næstu dögum.
Eiginkona Andra, Brynja Vala Bjarnadóttir, hefur ráðið sig í stöðu læknis á Danderyd sjúkrahúsinu í Stokkhólmi, þar sem hún mun einnig stunda sérnám í húðlækningum, að því er segir í tilkynningu. Þau eiga þrjú börn á aldrinum 1 til 5 ára.
Andri er með B.Sc. gráðu í eðlisfræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.