Kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru þeir einu sem finnst reglugerð heilbrigðisráðherra um að komufarþegar til landsins gætu verið í heimahúsi í sóttkví betri lausn en að skikka alla komufarþegar sem koma frá áhættusvæðum til að vera á sóttvarnahótelum.
Alls segjast 49 prósent kjósenda flokksins að þeir séu sáttir við reglugerð heilbrigðisráðherra en 46 prósent að þeir hefðu kosið að komufarþegum til Íslands frá skilgreindum hááhættusvæðum yrði gert að vera í sóttkví undir eftirliti. Sex prósent þeirra sögðu enn fremur að þeir væru þeirrar skoðunar að þeir hefðu kosið að komufarþegar myndu fá að ráða hvar þeir færu í sóttkví án þess að reglur um heimasóttkví yrðu hertar.
Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup þar sem spurt var um landamæri og sóttkví. Heilt yfir eru næstum tveir af hverjum þremur landsmönnum, alls 62 prósent, á því að komufarþegar frá áhættusvæðum yrði gert að dvelja á sóttvarnahótelum og fylgjandi því að sóttvarnarlögum verði breytt til að heimila það. Samfylkingin hefur þegar smíðað frumvarp þess efnis sem var lagt inn á Alþingi í gær og verður dreift þar í dag. Til stóð að ræða það á fundi ríkisstjórnarinnar í dag hvort Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra myndi leggja fram frumvarp sem ætti að tryggja lagastoð til þess að skikka fólk í sóttkví í sóttvarnahóteli.
Stuðningurinn er sömuleiðis afgerandi hjá kjósendum allra fimm stjórnarandstöðuflokka.
Könnun Gallup var netkönnun sem gerð var dagana 9.—19. apríl 2021. Þátttökuhlutfall var 53,2 prósent, úrtaksstærð 1.583 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.