Áform stjórnvalda um að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða fela í sér gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi. Í greinargerð með samgönguáætlun 2020 til 2034 kom fram að stefnt væri að gjaldtöku af umferð í jarðgöngum á Íslandi til að fjármagna rekstur og viðhald ganganna sem og hluta framkvæmdakostnaðar nýrra jarðganga.
Nú er í pípunum að gera frumvarp til laga um heimild til að stofna áðurnefnt hlutafélag og þar með hefja gjaldtöku, líkt og greint var frá þann 18. júlí á samráðsgátt stjórnvalda.
Í könnun Maskínu sem gerð var dagana 20. til 25. júlí kemur fram að meirihluti landsmanna er andvígur gjaldtöku í jarðgöngum, en alls svöruðu 55,1 prósent svarenda, eða 565 manns, því til að vera mjög eða fremur andvíg gjaldtöku. Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ertu fyrirhugaðri gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi? Hlynntir eða mjög hlynntir gjaldtöku voru 22,2 prósent svarenda, alls 228 manns, en þeir sem merktu við svarmöguleikann í meðallagi voru ögn fleiri, 232 einstaklingar eða 22,6 prósent svarenda.
Talsverður munur á afstöðu eftir flokkum
Kjósendur Viðreisnar eru líklegastir til að styðja gjaldtöku í jarðgöngum á Íslandi en kjósendur Sósíalistaflokksins eru líklegastir til að vera andvígir gjaldtöku, samkvæmt niðurstöðum úr könnun Maskínu á afstöðu fólks til gjaldtöku í öllum jarðgöngum á Íslandi.
Alls eru 78 prósent kjósenda Sósíalistaflokksins mjög eða frekar andvíg gjaldtöku, 16 prósent svara í meðallagi og aðeins 5 prósent segjast fremur hlynntir en enginn kjósenda sósíalista segist mjög hlynntur gjaldtöku.
Andstaða við gjaldtökuna er einnig yfir meðaltali hjá kjósendum Flokks fólksins, en 77,9 prósent kjósenda flokksins eru mjög eða frekar andvígir gjaldtöku, 8,3 prósent svara í meðallagi og 13,9 prósent eru mjög eða fremur hlynnt gjaldtöku.
Þá eru 64,3 prósent kjósenda Miðflokksins mjög eða frekar andvíg gjaldtöku, 57 prósent kjósenda Pírata og 54,7 prósent kjósenda Samfylkingar.
Kjósendur Viðreisnar jákvæðari en kjósendur stjórnarflokka
Svarendur sem segjast kjósa Viðreisn eru líklegastir til að vilja gjaldtöku, en alls eru 38,7 prósent fremur eða mjög hlynnt gjaldtöku í jarðgöngum, 25 prósent í meðallagi og 36,3 prósent mjög eða fremur andvíg.
Stuðningur kjósenda stjórnarflokkanna við áform stjórnvalda um gjaldtöku í jarðgöngum er töluvert minni en kjósenda Viðreisnar.
Mestur stuðningur er hjá kjósendum VG, en úr þeim hópi segjast 32 prósent mjög eða fremur hlynnt áformum um gjaldtöku, 31,2 prósent svara í meðallagi en 36,7 prósent kjósenda VG eru mjög eða fremur andvíg áformunum um gjaldtöku.
Af þeim sem segjast kjósa Sjálfstæðisflokk eru 27,6 prósent fremur eða mjög hlynnt gjaldtöku í jarðgöngum, 28,2 prósent svara í meðallagi en 44,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks eru mjög eða fremur andvíg gjaldtöku.
Meira en helmingur kjósenda Framsóknarflokksins, eða 51,5 prósent, segist mjög eða fremur andvígur gjaldtöku, 23,4 prósent kjósenda flokksins svara í meðallagi en innan við fjórðungur, eða 24,2 prósent, er fremur eða mjög hlynntur gjaldtöku.
Mest andstaða við gjaldtöku á Austurlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum
Þegar afstaða svarenda er skoðuð eftir búsetu sést að íbúar í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri til að vera hlynntir áformum um gjaldtöku en íbúar annars staðar á landinu. Mest andstaða við áformin er hins vegar á Vesturlandi, Vestfjörðum og Austurlandi.
Af íbúum Reykjavíkur í hópi svarenda eru 25,8 prósent svarenda mjög eða fremur hlynnt gjaldtöku, 21,1 prósent í meðallagi og 53,1 prósent fremur eða mjög andvíg gjaldtöku í jarðgöngum. Að sama skapi eru 24,4 prósent íbúa nágrannasveitarfélaga Reykjavíkur fremur eða mjög hlynnt gjaldtöku, 24,6 prósent í meðallagi og 51 prósent fremur eða mjög andvíg.
Á Austurlandi eru 72,2 prósent svarenda fremur eða mjög andvíg gjaldtöku og 75 prósent íbúa á Vesturlandi og Vestfjörðum eru fremur eða mjög andvíg. Aðeins 12,4 prósent svarenda á Austurlandi eru mjög eða fremur hlynnt gjaldtöku og 15,3 prósent í meðallagi. Andstaðan er enn skýrari á Vesturlandi og Vestfjörðum en þar er enginn mjög hlynntur gjaldtöku og 3,6 prósent svarenda fremur hlynnt, en 21,3 prósent í meðallagi.
Könnunin var lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er svokallaður þjóðhópur fólks sem dreginn er með tilviljun úr Þjóðskrá, á netinu, að því er fram kemur á vef Maskínu. Alls svöruðu 1069 könnuninni og gild svör voru 1025.