Rafn Einarsson hefur vikið sem fulltrúi Framsóknarflokksins og flugvallarvina í hverfisráði Breiðholts, eftir fund með oddvitum flokksins í morgun. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir tekur sæti hans í ráðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Stundin sagði í frétt í morgun frá ummælum sem Rafn hefur viðhaft á Facebook-síðu sinni. Rafn hefur tjáð sig ítrekað um múslima, meðal annars sagt að senda ætti alla múslima úr landi og að engum múslima virðist vera treystandi. Þá hefur hann sagt að Íslendingum sé illa við múslima.
Þessi ummæli hafa vakið mikla athygli og verið harðlega gagnrýnd víða. Ungir framsóknarmenn eru meðal þeirra sem fordæmdu ummæli Rafns í morgun, sögðu þau „gjörsamlega óásættanleg og fara þvert gegn skýrri stefnu flokksins í mannréttindamálum.“
Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi sagði einnig á Facebook-síðu sinni að hún væri ekki sammála ummælum Rafns. Í samtali við Vísi sagði hún að Rafn viðhefði ummælin ekki fyrir hönd flokksins. „Þetta er ekki í samræmi við stefnu Framsóknar og flugvallarvina. Við fylgjum stefnu flokksins en það að einstakir aðilar sem sitja í nefndum og ráðum tjái sig á Facebook þýðir ekki að þeir séu að tala fyrir hönd flokksins,“ sagði hún við Vísi og bætti því við að henni þættu ummælin skelfileg og væri mjög reið yfir þeim. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti flokksins, sagði við mbl.is að hún hefði ekki vitað af ummælum Rafns fyrr en í morgun. Henni þyki þetta miður.
Stjórn sambands ungra framsóknarmanna fordæmir ummæli Rafns Einarssonar sem hann hefur látið falla um múslíma að undanfö...Posted by Samband ungra framsóknarmanna on Wednesday, April 15, 2015
Lára Hanna Einarsdóttir benti á nokkur ummæli Rafns á Facebook í fyrrasumar.
"I just have a quick reaction to bullshit" stendur á myndinni hér efst á síðunni. Ég hef þó verið ótrúlega umburðarlynd...
Posted by Lára Hanna Einarsdóttir on Friday, May 30, 2014
Stutt frá síðustu afsögn
Skammt er frá því að Framsókn og flugvallarvinir drógu skipun Gústafs Níelssonar sem varamanns í mannréttindaráði borgarinnar til baka. Það var í janúar. Gústaf hefur einnig tjáð sig á neikvæðan hátt um múslima og byggingu mosku, en einnig um um samkynhneigða.
Þegar greint var frá því að Gústaf hefði verið skipaður sögðu fulltrúar Framsóknar og flugvallarvina að alls konar raddir ættu að hljóma í mannréttindaráði. Þegar skipun hans fékk mjög sterk viðbrögð, meðal annars gagnrýndu tveir ráðherrar hana harðlega, var skipun Gústafs dregin til baka. „Skipun varamanns í mannréttindaráð Reykjavíkurborgar í gær er ekki í samræmi við stefnu Framsóknarflokksins og voru því mistök af okkar hálfu,“ stóð í yfirlýsingu. Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir sagði í viðtali við mbl.is eftir ákvörðunina að ekki hefði orðið vinnufriður um málefnin, „og við vissum ekki af afstöðu til samkynhneigðra. Það er það sem breyttist.“ Hún minntist hins vegar ekki á afstöðu Gústafs til múslima.