Heildarfjöldi erlendra ferðamanna jókst töluvert milli mánaða í byrjun sumars, úr rúmlega 14 þúsund í maí í tæp 43 þúsund í júní. Helmingur allra farþeganna var frá Bandaríkjunum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Ferðamálastofu um fjölda farþega á Keflavíkurflugvelli.
Samkvæmt tölunum fóru rúmlega 13 þúsund íslenskir farþegar um flugstöðina í mánuðinum, sem er þrefaldur fjöldi þeirra í maí. Hins vegar er fjöldinn enn langt frá því að vera nálægt því sem hann var áður en faraldurinn skall á, en í júní 2019 fóru um 65 þúsund Íslendingar um Keflavíkurflugvöll.
Sömu sögu má segja um erlenda ferðamenn, þar sem fjöldi þeirra hefur um það bil þrefaldast á milli mánaða, þrátt fyrir að vera enn langt undir venjulegum fjölda ferðamanna um flugvöllinn að sumri til. Árið 2019 komu tæplega 195 þúsund ferðamenn til landsins í júní, en heildarfjöldi þeirra í ár nam tæpum 43 þúsundum.
Langstærstur hluti ferðamannanna, eða um helmingur þeirra, kom frá Bandaríkjunum. Til viðmiðunar var hlutfall bandarískra ferðamanna í júní 2019 um 31 prósent. Næst stærsti hópurinn kom frá Póllandi, en sá hópur náði um níu prósentum af heildarfjöldanum. Þjóðverjar, Bretar og Frakkar koma þar á eftir, en þeir voru samtals um 12 prósent af heildarfjölda ferðamanna.
Ef miðað er við sama mánuð á árinu 2019 mælist enn 78 prósenta samdráttur á fjölda erlendra ferðamanna, líkt og sést á myndinni hér að ofan. Hins vegar hefur dregið hratt og örugglega úr samdrættinum á síðustu mánuðum, en hann mældist 95 prósent í apríl síðastliðnum.
Eftir að faraldurinn skall á í mars í fyrra hefur fjöldi erlendra ferðamanna að minnsta kosti verið þremur fjórðungum minni en samsavarandi fjöldi á sama tíma árið 2019.