Minnst fjórir eru látnir og fjölmargir slasaðir eftir að jarðskjálfti sem mældist 7,3 á richter reið yfir Nepal í morgun og hálftíma síðar kom annar skjálfti upp á 6,3. Aðeins eru rúmar tvær vikur frá því að enn stærri skjálfti, upp á 7,8, varð minnst átta þúsund manns að bana.
Jarðskjálftinn sem reið yfir í morgun átti upptök sín nálægt bænum Namche Bazaar, nálægt Everest fjalli. Skjálftinn fannst einnig í norðurhluta Indlands og Bangladesh.
Þeir fjórir sem vitað er að eru látnir voru í Chautara, austur af höfuðborginni Katmandú. Þar hrundu margar byggingar til grunna. Í Katmandú hljóp fjöldi fólks út úr byggingum þegar skjálftinn reið yfir, en borgin varð mjög illa úti í skjálftanum í apríl. Samkvæmt sjónarvottum Breska ríkisútvarpsins BBC, hristist jörð um nokkra stund. Blaðamaður BBC, Simon Cox, sagði fólk vera mjög hrætt og margir hafi grátið á götum úti eftir skjálftana tvo.