Verðmætasta fyrirtæki heims, hugbúnaðar- og fjarskiptarisinn Apple, á nægt lausafé til þess að greiða allt Apollo verkefnið hjá NASA, en það er metið á 131,4 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 18.300 milljörðum króna. Þetta kemur fram á vef Business Insider.
Eftir jólavertíðina á síðasta ári, í febrúar síðastliðnum, sendi Apple frá sér tilkynningu til kauphallar þar sem fram kemur að félagið hafi átt 179 milljarða Bandaríkjadali í lausu fé frá rekstri, þann 27. desember í fyrra, eða sem nemur 25 þúsund milljörðum króna. Fyrir afganginn gæti Apple rekið hagkerfi Lúxemborg í meira en hálft ár, ef mið er tekið af árlegri landsframleiðslu í Lúxemborg, en hún nam rúmlega sextíu milljörðum Bandaríkjadala, eða sem nemur 8.400 milljörðum króna, fyrra.
Velgengni Apple undanfarin misseri hefur verið með ólíkindum, og eru fá dæmi um viðlíka arðsemi og fyrirtækið sýnt á síðustu tveimur ársfjórðungum. Á síðustu þremur mánuðum ársins í fyrra hagnaðist fyrirtækið um átján milljarða Bandaríkjadala, en heildartekjur á því tímabili námu 74,6 milljörðum Bandaríkjadala. Til samanburðar þá námu samanlagðar tekjur stórfyrirtækjanna Microsoft, IBM og Proctor & Gamble, 72,9 milljörðum Bandaríkjadala.
Apple kynnti 9. mars síðastliðinn nýjustu vörulínu sína, snjallúrin, en þau verða komin í almenna sölu í aprílmánuði.