Þótt Taylor Swift hafi snúið ákvörðun stjórnenda Apple, um að greiða tónlistarmönnum ekkert fyrir þær spilanir sem lög munu fá á fyrstu þremur mánuðum eftir opnun Apple Music, nýrrar tónlistarveitu Apple, þá virðist sigur hennar og fylgismanna lítill í peningum talið. Apple hyggst einungis greiða plötufyrirtækjum, og þar með listamönnum, samtals 0,002 dollara fyrir hverja hlustun. Það eru um 0,26 íslenskar krónur og þarf því fjórar hlustanir til þess að tónlistarmaður fái eina krónu greidda frá Apple. Greiðslan er fyrir skatta. Það þýðir að í mörgum löndum leggst ofan á rúmlega 20 prósenta virðisaukaskattur.
Greint er frá áætlun Apple á vef Business Insider í dag en tekið er fram að fyrirtækið hafi enn ekki greint frá fyrirætlunum sínum opinberlega. Um síðustu helgi vakti Taylor Swift athygli á fyrri áætlunum Apple Music um að greiða ekkert fyrir spilun í gegnum tónlistarveituna á fyrstu þremur mánuðum hennar, en ókeypis verður fyrir notendur að skrá sig fyrst um sinn. Eftir harðort bréf Swift skiptu stjórnendur Apple um skoðun og sögðust myndu greiða tónlistarmönnum höfundarréttarlaun.
Til samanburðar greiðir Spotify plötufyrirtækjum á bilinu 0,006 til 0,0084 dollara fyrir hverja spilun. Hlutur tónlistarmanns af þeim hlut er að jafnaði um 0,001128 dollarar, samkvæmt fréttaskýringu Guardian.